16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

6. mál, fátækralög

Halldór Stefánsson:

Hæstv. atvrh. þótti ekki rjett, eins og vænta mátti, sú afgreiðsla á frv., sem jeg lagði til, en hinsvegar fór hæstv. ráðh. (MG) þó ekki verulega inn á þær ástæður, sem jeg færði fram fyrir mínu máli, og taldi að það myndi verða árangurslítið að vísa því á ný til hinnar sömu stjórnar, m. a. vegna þess, að hún myndi ekki samþykkja það að hafa landið eitt framfærsluhjerað. En þótt svo væri, að hún fjellist ekki á það, sem er hugsunarlega það rjettasta, þá hefir verið bent á fleiri leiðir, og auk þess gætu fleiri komið til athugunar. Er ekki ólíklegt, að hæstv. stjórn geti dottið einhverjar nýjar leiðir í hug, eða þá tekið tillit til þess, sem hjer hefir komið fram við umr.

Hæstv. atvrh. var að tala um, að það væri þegar búið að ljetta allmikið undir með fátækraframfærslu hinna einstöku framfærsluhjeraða, t. d. með ákvæðum sjálfra fátækralaganna frá 1905, þá með berklavarnarlöggjöfinni og loks með þátttöku ríkisins í dvalarkostnaði þurfamanna á geðveikrahæli. Þetta er alveg rjett. Það hefir verið ljett allmiklu af sveitunum á þann hátt, en þrátt fyrir þann ljetti er þó það mikla misrjetti um álögurnar, sem jeg hefi getið um áður. Það var einmitt það, sem jeg talaði um, en ekki álöguþungann, að álögumar þyrftu að geta komið rjettlátlegar og jafnar niður. Jeg vísaði til stjórnarskrárinnar um það, að þetta væru útgjöld, sem væru almenns eðlis og sjálfsagt væri að ætlast til, að ekki kæmu mjög ójafnt niður á landsmenn, aðeins eftir því, hvar þeir væru búsettir í landinu. Jeg býst nú við, að á meðan hjer var það einfalda og reglubundna þjóðlíf, sem var hjer framan af eftir að þessi lög voru sett fyrst, þá hafi þetta misrjetti verið miklu minna. Það er nú fyrst að verða ljóst, hve mikil brögð eru að þessu misrjetti, og það fer líka altaf vaxandi. Þess vegna þyrfti að vinna einhverja bót á því. — Jeg hefi ekki haldið því fram, að það sje beinlínis brotinn bókstafur stjórnarskrárinnar, en jeg fullyrði, að andi hennar sje brotinn, því að jeg get ekki hugsað mjer þá stjórnarskrá, að almennar álögur eigi að koma misjafnlega þungt niður eftir því, hvar menn eru búsettir á landinu, og vil jeg ekki segja það um okkar stjórnarskrá, að það sje tilgangur hennar. Það eru atvikin, sem hafa látið þetta fara svona, en ekki það, að þetta hafi nokkurntíma verið hugsað svo.

Hæstv. atvrh. sagði, að það hefði verið bætt úr sumu því, sem hefði þótt vera að lögunum. Jeg skal ekki neita því, að eitthvað hafi verið lagað, en það hafa verið smámunirnir, sem leitast hefir verið við að athuga og laga, en gengið fram hjá stóru agnúunum, auk þess sem jeg tel, að frv. hafi nú spilst mjög við meðferð hv. Ed., eins og jeg hefi áður talað um, og get einnig vísað til þess, er sessunautur minn, hv. þm. Barð. (HK) sagði nú nýlega. Að öðru leyti þykist jeg ekki hafa ástæðu til að fara út í frekari umræður um málið.