16.05.1927
Neðri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

6. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Kjartansson):

Þessir tveir andmælendur frv., hv. 1. þm. N.-M. (HStef) og hv. þm. Barð. (HK), telja báðir, að frv. hafi spilst hjá hv. Ed. Jeg get nú viðurkent það, að sumar þær breytingar, sem hv. Ed. hefir gert á frv., sjeu ekki til bóta, sjerstaklega verð jeg að viðurkenna það, sem hv. þm. Barð. sagði um breytinguna á 45. gr. Jeg tel hana ekki til bóta, en hún er ekki stórvægileg, og jeg sje ekki, að það saki neitt, þótt hún hafi komist inn. Aftur á móti tel jeg, að ýmsar aðrar breytingar háttv. deildar sjeu tvímælalaust til bóta, t. d. ákvæðið um áfrýjunarrjettinn í 43. gr.

Jeg mintist á það áður, þegar þetta mál var til meðferðar hjer í deildinni, að það væri tilætlunin að setja inn svipað ákvæði og þetta, en það fjekst ekki samkomulag um það í nefndinni. Jeg er viss um, að þessi áfrýjunarrjettur er til bóta, og jeg skil ekki, hvers vegna hv. þm. Barð. spyr um það, til hvers hann sje. Það stendur að vísu ekki berum orðum í greininni, að þessir aðiljar, sem eiga að fá málið til endurskoðunar, eigi að úrskurða um það. En það er augljóst, að þessi áfrýjun er gerð í þeim tilgangi, að þeir leggi úrskurð á gerðir sveitarstjórna.

þá þykir mjer það undarlegt, að hv. 1. þm. N.-M. skuli nú vera að koma með till. um að vísa málinu til stjórnarinnar. (HStef: Jeg var altaf á móti málinu). Jú, jeg man það, en hv. þm. man það víst líka, að bæði þær brtt., sem hann flutti, og aðrar stórvægilegar brtt., er fram komu í þessari hv. deild við 2. og 3. umr. málsins, voru allar feldar með miklum atkvæðamun og málið afgreitt frá deildinni með atkv. þorra deildarmanna. Jeg tel víst, að hv. deild vilji ekki ganga inn á neinar stórfeldar breytingar, sem bæði þessi hv. þm. og eins hv. 4. þm. Reykv. (HjV) hafa stungið upp á. (HStef: Það eru til aðrar leiðir). Já, en þær hafa ekki legið fyrir hjer, og þótt kær kunni að vera hugsanlegar, þá býst jeg við, að þær eigi nokkuð langt í land, og því ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða þetta mál nú. Eins og jeg hefi áður tekið fram, eru í þessu frv. margar mikilsverðar rjettarbætur, sem jeg er viss um, að verður vel tekið hjá þjóðinni. En það er með þetta mál eins og svo mörg önnur, að það er rjettara að þreifa sig áfram, til þess að tryggja það, að ekki verði hlaupið á sig með of stórfeldum breytingum. Það getur ekki verið til bóta, þótt hægt væri að ljetta fátækrakostnaðinum af einstökum hjeruðum, ef hann fyrir það legðist með ennþá meiri þunga á ríkið. En jeg get hugsað mjer, að sú mundi afleiðingin verða, ef sumar þær tillögur, sem hjer hafa legið fyrir, yrðu að lögum. Jeg tel það alveg ástæðulaust að hafa á móti málinu, eins og það liggur hjer fyrir, og vil jeg því hvetja hv. deild til þess að fella tillögu hv. 1. þm. N.-M. og samþykkja frv. eins og það liggur fyrir.