31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

115. mál, bankavaxtabréf

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hefi borið hjer fram brtt. á þskj. 271, um það að sýna lántakendum í veðdeild og ræktunarsjóði það rjettlæti að lækka skuldir þeirra um 20%, ef svo skyldi fara, að krónan kæmist aftur í sitt gamla gullgildi, eða því sem næst.

Jeg drap á þetta mál í sambandi við annað mál, — frv. um að stöðva verðgildi íslenskra peninga, en jeg vildi fresta því að koma fram með till. í þessa átt, þangað til sjeð væri, hvernig færi um verðfestingarfrumvarpið. Nú er það nokkurn veginn víst, að íhaldsmenn og jafnaðarmenn hafa tekið höndum saman um að hefta framgang þess frv., og jeg tel víst, að það nái ekki fram að ganga á þessu þingi. Jeg þykist líka sjá, að það verði ekki hægt að koma málinu fram á hinum rjettasta grundvelli, en þá er að athuga, að hve miklu eða litlu leyti er hægt að koma í veg fyrir það ranglæti, sem hlýtur að eiga sjer stað, ef krónan hækkar enn. Í þeim tilgangi ber jeg fram þessa till. og þó ekki væri til annars en að sjá, hvernig atkvæði skiftast um þessa hlið málsins.

Jeg skal þá minnast á hina formlegu hlið málsins fyrst. Jeg var að hugsa um að bera fram sjerstakt frv. um þetta efni, en þá er frv. það, er hjer liggur fyrir, kom fram, fanst mjer það formlega rjett að bera þetta mál fram sem breytingu á því. Jeg held því fram, þangað til vjefengt verður, að þetta sje formlega rjett.

Þá er efnishlið málsins.

Jeg vil þá fyrst benda á, að það er eitt sameiginlegt um öll þau lán, sem brtt. getur um, að þau eru veitt í föllnum peningum. Ef krónan hækkar og þess verður krafist, að lánin sjeu greidd með verðhærri peningum heldur en lánaðir voru, þá er framið ranglæti, þannig að menn verða látnir greiða 20% meira en þeir fengu að láni. Þessi lán eru öll tekin til nytsamlegra framkvæmda, svo sem til húsabygginga og jarðabóta. Og ríkið sjálft hefir einmitt með hliðsjón af því gert sjerstakar ráðstafanir um lánveitingar þessar. Þeir, sem lánin hafa tekið, eru hinir nytsömustu menn þjóðfjelagsins, hinir framgjörnu menn, og er það himinhrópandi ranglæti að ætla sjer að skattleggja þá þannig, að láta þá greiða þessi lán með miklu dýrari peningum en þeir fengu. Jeg legg áherslu á það, að hjer er um rjettlætisatriði að ræða, og það er höfuðástæðan til þess, að jeg ber fram þessar brtt.

Ein ástæðan til þess, að jeg ber fram þessar brtt. er og sú, að mönnum í landinu er nú að verða ljóst hvert stefnir. Þeir vita það, að gengishækkun vofir yfir og getur skollið á þegar minst varir. Þeir vita, að þeir eiga það á hættu, ef þeir taka lán nú til húsa- eða jarðabóta, að þeim verði refsað fyrir það með gengishækkun. Þess vegna vilja þeir bíða með að taka lán, þangað til krónan hækkar.

Tveir flokkar hjer á landi vilja að gengið hækki, íhaldsmenn og jafnaðarmenn. Þetta veldur kyrstöðu í öllum framkvæmdum, því að meðan svo er, þora menn ekki að leggja út í nein fyrirtæki. Fyrir landbúnaðinn er þetta stórkostlega hættulegt, því að alt, sem hindrar ræktun landsins, er hinn versti þrándur í götu allra framfara.

Jeg vil losa framkvæmdamennina við þennan ótta með því að verðfesta peningana. En ef það tekst ekki, þá er þó með þessum brtt. gerð tilraun um það að koma í veg fyrir, að mönnum sje refsað fyrir það að ráðast í framkvæmdir.

Jeg vil enn geta eins atriðis í sambandi við hina almennu hlið þessa máls. Jeg tel víst, að atkvgr. um efni þessarar till. hljóti alls ekki að falla eftir sömu línum og um gengismálið alment.

Jeg vil gera ráð fyrir, að sumir hækkunarmenn geti greitt atkv. með þessari till. T. d. fanst mjer foringi hækkunarmanna, hæstv. forsrh. (JÞ), ekki taka svo illa í þetta. Hjer er um svo alvarlegt ranglæti að ræða, að jeg vil gera ráð fyrir, að sumir þeirra að minsta kosti vilji verða samferða að ráða bót á því.

Jeg get ennfremur gert ráð fyrir því, að þótt jeg sem verðfestingarmaður vilji stíga þetta spor, þá sjeu þó sumir verðfestingarmenn þeirrar skoðunar, að þeir telji ekki rjett að leiðrjetta þetta ranglæti aðeins á þessu þrönga sviði og kalli þetta ekki neina lausn málsins, ekki einu sinni til bráðabirgða. Þótt jeg beri þessar till. fram, get jeg lýst því yfir, að jeg tel þetta alls enga endanlega lausn. Jeg mun berjast fyrir verðfestingu eftir sem áður, en þegar ekki verður komist þá leiðina, vil jeg þó reyna að draga úr afleiðingum gengishækkunar. Mjer væri kært að fá atkvgr. hjer á þessu þingi um þá siðferðilegu hlið þessa máls. Jeg legg áherslu á, að þó að atkvgr. fari fram, standi verðfestingarleiðin opin eftir sem áður.

Ef svo færi, að till. mínar yrðu samþyktar, teldi jeg það ávinning fyrir stefnuna, því að með því er viðurkend hin mikla sanngirnis og rjettlætiskrafa á þessu sviði. Og hvort sem samþykt verður eða felt, álít jeg frekari umræður um þetta atriði altaf til bóta fyrir minn málstað. Ef því hinsvegar verður neitað að láta þörfustu borgara þessa þjóðfjelags, framkvæmdamennina, komast undan ranglæti, þá vona jeg, að falli skurn af augum sumra þeirra, er enn hafa ekki hlotið sýn á þann óþolanda órjett, er vitandi vits á að beita þessa menn.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að segja meira um hina almennu hlið. Jeg vænti þess, að umr. fáist um þetta nú og mjer gefist þá tækifæri síðar að fara út í það frekara.

Af því, að þetta frv. er nú hjer til 1. umr., og óvíst, að tækifæri gefist til að tala um það framar hjer, verð jeg að fara nokkrum orðum um einstök atriði í brtt. minni á þskj. 271. 1. Jeg geri ekki ráð fyrir, að tilfærsla eða uppbót komi til handa lántakendum fyr en krónan er komin nálega upp í sitt gamla verð eða parí. Það hefði mátt hugsa sjer að fara aðra leið, ef gert væri ráð fyrir, að hún næði gullgengi smátt og smátt, að tilfærslan færi fram líka smátt og smátt eftir gengi í gjalddaga hvert sinn. En við það er tvent að athuga. Annað er erfiðleikar í framkvæmdinni. Hitt er reynslan, sem sýnir, að hækkunin gangi fyrir sig í stórum stökkum. Og jeg legg áherslu á, að jeg tel víst ef krónan hækkar, þá hækkar hún nálega í einu stökki. Það er reynsla undanfarinna ára. Krónan okkar hefir tekið tvö stökk og hvort um sig ekki minna en það, er nú er eftir upp í gullgengi.

Og niðurstaðan hjá þeim, er mest hafa um þessi mál fjallað, er sú, að heppilegra og farsælla sje að taka stór stökk á hækkunarbrautinni, ef hækkað er á annað borð, en ekki eins og talið var fyrir nokkrum árum, að hægfara hækkun væri æskilegust. Um það vorum við sammála í fyrra, hæstv. forsrh. (JÞ) og jeg. Út frá þessum forsendum er ekki gert ráð fyrir öðru en stóru stökki.

2. Næsta atriðið er, að jeg hefi ekki kveðið svo á, að krónan þurfi að hafa náð alveg fullu gullgengi, til þess að uppbót komi til álita, heldur svo nærri, að ekki vanti á meira en 5%. Það er með vilja gert. Reynslan er sú hjá nágrannaþjóðunum, að gjaldeyririnn hefir alllengi verið að sveima rjett neðan við parí. Svo getur og farið hjer, og með tilliti til þess er þetta ákvæði sett. En út frá hinu er gengið, að ef krónan á annað borð kemst svona nálægt gullgildinu þá muni hún fljótlega ná því alveg.

3. atriðið er um það, til hvaða lána þetta skuli ná. Það á að ná til þeirra flokka veðdeildarinnar, sem eingöngu hafa veitt lán í föllnum krónum, og hinna nýju lána úr ræktunarsjóði.

4. atriðið er um það, hversu mikið skuli færa niður höfuðstól lána.

Í till. er miðað við 20% lækkun. Um það má deila, og legg jeg ekki kapp á það sem neitt aðalatriði. Þessi upphæð, 20%, er heldur hærri en á vantar nú í gullverð. En þegar þess er gætt, að framkvæmdamennirnir, sem tekið hafa lán bæði í veðdeild og úr ræktunarsjóði, hafa á ýmsan annan hátt orðið fyrir barðinu á gengishækkuninni, virðist ekki ósanngjarnt, þótt þeir fái þessa uppbót nokkru meiri en henni nemur.

Loks er og 5. og síðasta atriðið viðvíkjandi 4. gr., sem jeg vil skjóta inn í, að ríkissjóður borgi mismuninn, sem nemur niðurfærslu höfuðstóls lánanna. Það kemur ekki til mála að skerða höfuðstól veðdeildar og ræktunarsjóðs. — Um 5. og væntanlega 7. flokk veðdeildarinnar er sjerstaklega ástatt, því að ríkissjóður hefir þegar keypt allan 5. flokk, og stendur til, að hann kaupi líka 7. flokk. Hann ætti því tvímælalaust að borga mismuninn þar, vinnur hann upp á útlenda láninu, ef krónan fer upp í gullgengi.

Um 6. flokk er það að segja, að Landsbankinn hefir keypt meginið af brjefunum þar. Gæti vitanlega komið til mála og lægi næst að ætlast til, að hann bæri af þeim allan veg og vanda. En jeg hefi þó ekki lagt til, að hann greiði mismuninn í þessum flokki. Þeir eru hvort eð er eins og tveir vasar á sömu flíkinni, ríkissjóður og Landsbankinn. Ríkið verður hvort sem er að styrkja Landsbankann, og því hefi jeg hallast að þeirri tilhögun, að það taki hallann á sig en bankinn ekki.

Ríkið hefir ennfremur hrundið af stað ræktunarsjóðnum og hvatt menn til lána úr honum. Jeg get þess, að lánað hefir verið úr honum nú ca. 11/3 milj. kr., og 20% af þeirri upphæð nemur um milj. kr.

Jeg mun svo ekki fara fleiri orðum um brtt. mínar. En út af orðalagi 2. gr. frv., að fyrir fjeð skuli líka kaupa jarðræktarbrjef með því verði, að ríkissjóður sje skaðlaus af kaupunum, vil jeg segja það, að eigi að miðast við útlánsvexti ræktunarsjóðs til bænda, kemur þetta ekki að tilætluðum notum.

Jeg gat þess við 1. umr., að jeg gæti ekki aðhylst þetta. Hafði hugsað mjer að koma með brtt. En við nánari athugun leist mjer önnur leið heppilegri: að koma því að í Landsbankafrumvarpinu, eða gera till. um í fjárlögum, að ríkið hlutist til um að lækka vexti af þessum lánum.

Læt jeg þar staðar numið að sinni.