25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer skildist það á hv. frsm. (JörB), að jeg hefði við fyrri hluta þessarar umr. átt að leggja talsvert ákveðið á móti brtt. á þskj. 195, en það er ekki rjett; jeg ljet hana alveg hlutlausa, en jeg tel hana ekki nauðsynlega vegna 15. gr. frv., því að það verður ómögulegt að hafa umsjón með fjallskilum nema að hafa fjallskilareglugerð og ákvæði um, hvernig á að fara með fje þessara sjóða. Jeg hefi ekkert á móti því, að þessi grein verði samþykt, en mjer þótti heldur lítil ástæða til að fara að hrekja málið á milli deilda fyrir þessa brtt. eina.

Um brtt. frá hv. þm. Barð. (HK) vil jeg aðeins segja það viðvíkjandi breytingu á oddvitalaunum, að stjórnin getur vel sætt sig við það eins og varatill. hv. þm. (HK) er, því að það er það sama sem stjórnin lagði til í sínu frv. Annars er engin ástæða til að gera það að kappsmáli, hvort oddvitar fá 4 eða 5 krónur fyrir hvern fullan tug hreppsbúa, en jeg hygg, að víða sjeu þeir ekki of sælir af 5 kr.

Um brtt. hv. þm. (HK) við 28. gr., sem gengur út á það, að dregið sje það vald frá sýslunefndum, sem staðið hefir í lögum síðan 1875, að þær eigi að leggja samþykki sitt á ýms þau málefni, sem hreppsnefndir fjalla um, og þó er ekki svo, að þær hafi fullkomið úrskurðarvald, því að hreppsfundur, ef hann er nægilega fjölmennur, getur dregið úr þessu valdi þeirra, og jeg verð að segja, eins og hv. allshn., að jeg get ekki sjeð neina ástæðu til að breyta þessu fyrirkomulagi, sem reynst hefir vel um langan tíma. En það, sem sjerstaklega kom hv. þm. (HK) á stað, var 30. gr.; honum þóttu ákvæði hennar svo hörð, þar sem sagt var, að gera mætti lögtak í eignum oddvita fyrir sektum, sem hann fengi fyrir vanrækslu í starfi sínu, en mjer þykja þau ákvæði ekki hörð, enda eru þau hliðstæð við ákvæði um hreppsnefndarmenn, sem eru í fátækralögunum. En ástæðan til þess að greinin kemur fram, er sú, að sýslunefndaroddvitar segja, að þeir geti oft ekki fengið skilagrein frá hreppsnefndaroddvitum, og að þeir hafi enga lagaheimild til að þvinga þá til skila, og veit jeg, að hv. þm. Barð. (HK) er svo skyldurækinn, að honum dettur ekki í hug að mótmæla því, að rjettmætt sje, að slíkum mönnum sje gert að skyldu að greiða sekt, þegar yfirvaldið álítur það sanngjarnt.

Um brtt. á þskj. 250, frá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), vil jeg aðeins segja það, að jeg tel hana hafa mjög litla þýðingu, því að eftir 28. gr. þarf ekkert annað en samþykki sýslunefndar til þess að heimilt sje að borga fyrir innheimtu í hreppnum, og ef á annað borð er farið að borga fyrir innheimtu í hreppnum, þá er 2% það lægsta, sem þekkist fyrir slíkt verk, en svo skilst mjer, sem hv. þm. (ÁÁ) gangi út frá því, að það sje jafnan oddviti, sem sje innheimtumaður útsvara, en það þarf ekki að vera, það getur vel verið, að einhverjum hreppsnefndarmanni sje falið það, eða þá einhverjum öðrum, og þá er það ekki oddvitinn, sem á að fá gjaldið. Þetta kemur berlega fram í 9. gr. frv., þar sem sagt er, að ýms störf, svo sem innheimtu og fleira, geti hreppsnefnd falið öðrum mönnum en oddvita. Jeg þykist viss um, að sýslunefnd muni ekki neita að samþykkja tillögur þess efnis, að innheimtumaður fái einhver innheimtulaun, ef það þykir þess vert, og jeg vil benda á það, að ef oddvita er launað með 5 krónum á hvern fullan tug hreppsbúa, þá er það mín skoðun, að minni ástæða sje til að láta svo koma í viðbót aukaþóknun fyrir innheimtuna.

Út af ræðu hv. 1. þm. Árn. (MT) vildi jeg aðeins benda honum á, að það er ekki alveg laust við, að hreppsnefndum hafi verið gefnir nýir tekjustofnar. Það er í raun og veru nýr tekjustofn, þegar sýslunefnd heimilar að setja á stofn sýsluvegasjóði, með tillagi úr ríkissjóði, því að það er alveg sama, hvort þær fá beinar tekjur eða hvort það er dregið úr útgjöldum þeirra. Sömuleiðis vil jeg benda hv. þm. (MT) á útsvarslögin, sem samþykt voru í fyrra. Þar er í raun og veru gefinn nýr tekjustofn, með því að nú á að leggja á hvern mann, þar sem hann á lögheimili, og sömuleiðis, að menn, sem leita sjer atvinnu annarsstaðar, þeir eiga nú að greiða þar fult útsvar, þar sem þeir eru búsettir eða eiga lögheimili, og þannig hafa hreppsnefndir fengið menn til að leggja á, sem þær hafa ekki getað lagt á áður, eða þá að minsta kosti mjög lítið.

Jeg skal ekkert fara út í það, hvaða frv. hv. allshn. kann að flytja til ljettis sveitarstjórnum, en jeg vil benda á það, að ef á að finna beina tekjustofna fyrir hreppana, þá er jeg hræddur um, að erfitt verði að finna tekjustofna, sem eru sanngjarnari og rjettlátari en niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum, því að þar, sem ekki er mjög fjölment, er kunnugleiki svo mikill hjá hreppsnefndum, að það er ekki hægt, að mínu áliti, að finna annan betri; en ef þingið vill fara inn á þá braut að ljetta einhverjum gjöldum af hreppsnefndum, sem þær hafa nú, þá er það málefni, sem ekki kemur þessu máli við.

Sjerprentun laga kemur náttúrlega ekki þessu máli við, en jeg vil segja það, að það er siður ennþá að sjerprenta ýms lög, og veit jeg ekki betur en að sýslumenn hafi fengið það, sem þeir hafa óskað eftir, ef þau lög hafa verið til sjerprentuð, og jeg veit, að sjerprentun af sveitarstjórnarlögunum var ekki gengin upp á síðasta þingi, því að þá fjekk jeg mjer eitt eintak af þeim.