01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

115. mál, bankavaxtabréf

Ásgeir Ásgeirsson:

Vegna yfirlýsingar háttv. frsm. (JAJ) vil jeg gefa nokkrar upplýsingar um meðferð málsins í fjhn. Nefndin skaut á stuttum fundi í gær, meðan á deildarfundi stóð, og skildist mjer, að nefndin vildi aðeins fresta málinu til næsta reglulegs nefndarfundar, en nú hefi jeg heyrt, að sumir nefndarmenn hafi lagt þann skilning í ályktun nefndarinnar, að málinu skyldi frestað til næstu þinga, en með þeim skilningi greiddi jeg alls ekki atkvæði.

Mjer fanst þetta mál þess vert, að það sje athugað nákvæmlega nú þegar á þessu þingi, og gerði því ekki ráð fyrir, að nokkrum nefndarmanni dytti í hug að afgreiða það á skyndifundi, á meðan á deildarfundinum stæði.

Jeg gat þess á þessum fundi nefndarinnar. að rjettlátast myndi að reikna öll lán bæði veðdeildarinnar og ræktunarsjóðsins í gulli. Ef það væri gert, myndu lántakendur fá þann rjett, er við verðfestingarmenn heimtum til handa öllum borgurum þjóðfjelagsins. Og þetta held jeg að mætti framkvæma án fjárausturs úr ríkissjóði.

Eins og nú stendur, sje jeg ekki ástæðu til að bera fram brtt. um þetta, því að jeg þykist sjá, að brtt. hv. þm. Str. verði ekki samþykt, en jeg mun greiða atkvæði með henni til þess að sýna, að jeg vil láta lántakendur ræktunarsjóðs og veðdeildar njóta þess rjettlætis, sem fast verðgildi peninga veitir. Þá yrði og ranglæti það, er þeir bíða, sem eftir verða og við óstöðugan gjaldeyri eiga að búa, ennþá augljósara og óbærilegra. Þetta á atkvæði mitt um þessa tillögu að merkja, en hún er örlítill þáttur í hinu mikla gengismáli.