01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

115. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Hv. þm. Str. (TrÞ) fann allmjög að því, hve stuttan tíma nefndin tók til að athuga þessa brtt. (TrÞ: Það var sagt í spaugi). Það má vel vera, en jeg kann illa við, að nefndin sje borin sökum um ljeleg vinnubrögð. Annars er það misskilningur hjá þessum hv. þm., ef hann heldur, að nefndarmenn yfirleitt athugi ekki málin fyr en á nefndarfundum. Menn athuga málin hvað mest á milli funda, en taka aðeins ákvarðanir á fundunum. Annars hjelt jeg, að hv. þm. Str. mundi ekki ráðast svona á nefndina fyrir þetta, því að vel er hægt að sýna honum fram á, að margt í till. hans er grunt hugsað, jafnvel heimskulega fljótfærnislegt. Eins og t. d. að vilja binda ríkissjóði 11/2 milj. kr. bagga til handa þeim mönnum, sem fasteignir eiga, þar af leiðandi handa þeim mönnum, sem hingað til hafa verið taldir eiga yfir mestum efnum að ráða. Þá sagði hann ennfremur, að ekki hefði verið tekin endanleg ákvörðun um tillöguna með atkvgr. í nefndinni, en þetta skil jeg ekki. Nefndarmenn allir, að undanskildum háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), skildu atkvgr. eins og hún er bókuð í fundabókinni, sem sje, að nefndarmenn legðu á móti brtt. hv. þm. Str. Hv. þm. V.-Ísf. var ekki viðstaddur, er rætt var um málið á nefndarfundinum, en kom rjett í því, að atkvgr. fór fram, og af því er það eðlilegt, að hann gæti misskilið ályktun nefndarinnar.

Nýlega hafa verið seld brjef, bæði einstökum mönnum og fjelögum, fyrir 230–240 þús. kr. Ríkissjóður yrði að taka skellinn af þessum brjefum, og fengju brjefaeigendur á þann hátt töluverða fúlgu úr ríkissjóði. Jeg verð að segja, að það væri lítið rjettlæti, ef ekki ranglæti, að ætla að binda ríkissjóði bagga til þess að ljetta undir með þeim, sem eiga fasteignir, og hafa þar af leiðandi tiltölulega mest lánstraust allra manna, svo og þeim, sem svo eru staddir, að þeir geta lagt fje í verðbrjefakaup, en láta svo þá menn, sem verri aðstöðu hafa, en þurfa að nota peninga til framleiðslu til sjós og lands, borga brúsann fyrir hina.

Það er rjett, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að hann hefði misskilið till. á nefndarfundi. En mjer vitanlega var ekki nema hann einn nefndarmanna, sem svo skildi, og lágu til þess eðlilegar ástæður.

Það var misskilningur hjá hv. þm. Str., að jeg hefði sagt, að rjettast væri að fresta þessu máli til næsta þings. Það, sem samþ. var með till., sem borin var upp í fjhn. um þetta mál, var það, að þessa till. mætti hafa til athugunar með hliðsjón af því, hvort ekki væri hægt síðar að gera einhvern jöfnuð milli inneigenda og lántakenda í landinu, en um það eru skiftar skoðanir innan nefndarinnar.