01.04.1927
Neðri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

115. mál, bankavaxtabréf

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil fyrst geta þess, að mjer kom ekkert á óvart, þótt hæstv. fjrh. (JÞ) yrði til þess að tala hart á móti þessari brtt. minni og yrði líka til þess að tala af sjer, því að hjer sannast hið fornkveðna, að blóðnætur eru bráðastar, því að hann er í sárum eftir þá pólitísku „operation“, sem gerð var á honum fyrir nokkrum dögum, og því er von, að hæstv. ráðh. sje nokkuð viðkvæmur. Og þar sem jeg átti nokkurn þátt í þessum nafnkunna uppskurði, þá er honum nokkur vorkunn. Jeg virði því framkomu hans í þessu máli á betra veg og ætla að fara mjúkum höndum um hann í þetta sinn.

Vil jeg fyrst minna á það, er hæstv. ráðh. sagði, að jeg hugsaði ekki nógu djúpt, og benti á, að af till. minni leiddi ranglæti, þar sem þeir menn, sem tekið hefðu mikið af þessum lánum, hefðu bygt hús fyrir þau og tækju svo háa húsaleigu. En hjer hugsar hæstv. ráðh. ekki nógu djúpt, því að ef það er rjett, að húsaleigan fáist ekkert niður, þótt krónan hækki, þá er það játning frá hæstv. ráðherra um það, að verðlagið í landinu komist ekki niður í samræmi við hækkun krónunnar. Þá verður m. ö. o. ekki hægt að hækka krónuna. Jeg get hugsað mjer, að ráðstafanir væru gerðar til að hindra, að húsaleigan sje of há, um leið og framið er slíkt rjettlæti, sem hjer er farið fram á. Þá ætti að gera opinberar ráðstafanir til að setja húsaleiguna niður.

Svo vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að jeg sýndi meiri ljettúð um fjárhag ríkissjóðs og vildi meiri fjáraustur en dæmi væru til. En hæstv. ráðh. viðurkendi í gær, að það, sem hjer er um að ræða, sje aðeins að ráðstafa gengisgróða ríkissjóðs á lánum þeim, sem hann hefir tekið. Ríkissjóður hefir keypt allan 5. flokk veðdeildarbrjefanna og kaupir líklega mestallan 7. flokk, auk þess sem Landsbankinn hefir keypt mikið af 6. flokki. Ef krónan hækkar, getur ríkissjóður grætt meira en 1 milj. kr. Hæstv. ráðh. hefir slegið því föstu, að hann græði í mesta lagi 1 milj. kr. En nú eru lán þau, sem ríkissjóður hefir tekið og á að taka til að kaupa fyrir bankavaxtabrjef, samtals um 61/2 milj. kr., og er þá 1/5 hluti þeirra eða 20% meira en 1 milj. kr.

Það eina, sem hæstv. ráðh. gæti kallað fjáraustur, væri það, ef ríkissjóður borgaði 20% af því, sem tekið hefir verið til láns í ræktunarsjóðnum í því skyni að lækka lánin samsvarandi hækkun krónunnar. Þar er um lán til þarflegra framkvæmda að ræða, og ríkið hefir beinlínis hvatt menn til að taka þau. Þessi upphæð yrði milj. kr., og jeg þori að horfa framan í hvern sem er, þótt jeg legði það til, að þau lán væru lækkuð.

Þá sagði hæstv. ráðh., að jeg væri reiðubúinn til þess að gefa meira. Þetta er útúrsnúningur. Það, sem jeg sagði, var, að við ættum að stíga sporið út, samþ. frv. um verðfestingu peninganna. Í því felast engar gjafir, heldur aðeins hið sjálfsagðasta rjettlæti. Hv. frsm. talar um, að jeg vilji ívilna einstökum mönnum, en hann sjálfur kemur einmitt fram með slíka tillögu.

Hæstv. ráðh. var að tala um kosningabeitu. Við skulum nú fresta því að tala um það, þangað til á kosningafundum í haust. Jeg mun verða ánægður að koma með till. mínar á þeim fundum.

Svo sagði hæstv. ráðh., að ekki væri hægt að greiða atkv. um þessa tillögu vegna þess, að þetta væri ekki meiri rjettlætiskrafa fyrir þessa menn en aðra. Það er rjett, en það liggur í augum uppi, að þegar hæstv. ráðh. játar, að þetta sje rjettlætiskrafa fyrir aðra fleiri, þá er það sama rjettlætiskrafan fyrir þessa menn, sem hjer um ræðir. Og þegar hann játar þetta, að margir fleiri hafi sömu rjettlætiskröfu, þá skoða jeg það sem játningu frá honum um það, hvað hann hafi framið mikið ranglæti og ætli að fremja mikið ranglæti með gengishækkuninni. Að hæstv. ráðh. ber þetta fram sem vörn fyrir máli sínu er ljós vottur um það, hvernig hann hugsar. Það er eins og þegar menn voru að kastast á með grjóti í gamla daga, að sá, sem kastaði, fjekk grjótið sent aftur, og svo kom það í bakið, þegar hann lagði á flótta.

Hæstv. ráðh. sagði, að jeg væri að glamra með að vilja ljetta undir með atvinnuvegunum. Jeg hefi talað um þá æðstu kröfu, sem atvinnuvegirnir eiga á hendur ríkinu, að þeir verði látnir fá fastan grundvöll til þess að standa á og fái verðfasta peninga, til þess að atvinnureksturinn sje ekkert lotterí, heldur verði afraksturinn í hlutfalli við forsjá og fyrirhyggju, eins og á eðlilegum tímum.

Það, sem fyrst og fremst hvatti mig til þess að bera þessa till fram, var umhyggja fyrir þeim framleiðendum, er lagt hafa í kostnað við framkvæmdir, sem miða að aukinni vellíðan sín og sinna, og tekið hafa lán til húsabóta og ræktunar.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ekkert stæði í till. minni, sem gerði ráðstafanir gagnvart því, ef krónan lækkaði aftur. Það er rjett, en jeg vil alls ekki láta það koma fram, að við gerum ráð fyrir slíku. Það er ógæfa, sem við varla megum gera ráð fyrir. En færi svo, þá er það altaf í ríkisins hendi að gera þær ráðstafanir, sem best henta. En hv. frsm. (JAJ) gerir ráð fyrir, að svo forsjárlaust verði landinu stjórnað á fjármálasviðinu, að við munum ana upp í gullverð, en svo verða að láta krónuna falla aftur.

Hjer hefir hv. frsm. ekki hugsað nógu djúpt, auk þess sem hann hefir sýnt stjórninni hið megnasta vantraust. Fjármálum þjóðarinnar hefir þannig verið stjórnað hin síðustu árin, að ekki er trygt með þetta. En þar sem þessi stjórn er aðeins bráðabirgðastjórn og hægt að gera ráð fyrir, að skynsamari stjórn komi áður langt um líður, þá er óhætt að vera vongóður. Jeg legg svo till. mína með ánægju undir atkv. hv. deildar.