13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

115. mál, bankavaxtabréf

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skal strax svara hv. 4. landsk. (MK). Jeg kannast ekki við að hafa neinstaðar gefið það í skyn, að veðdeildarbrjefin mundu lækka niður úr 89 krónum, ef tækist að fá það lán, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Hinsvegar hefir stjórn veðdeildarinnar bent á, að ekki mundi unt að halda brjefunum í núverandi gengi, nema hægt væri að útvega þetta lán.

Hv. þm. mintist á ummæli mín í Nd. viðvíkjandi tillögum, sem fram kynnu að koma til að bæta úr erfiðleikum, sem gengishækkun kynni að skapa. Það var rjett eftir haft, að jeg sagðist mundu ræða slíkar tillögur með velvild. En jeg get ekki gengið inn á þá hugsun að slá því föstu löngu fyrirfram, að ákveðnum flokki lántakenda sje veitt uppgjöf skulda, án þess nokkuð sje um það vitað, hvernig hagur þeirra stendur eftir hækkun krónunnar. Þetta er alt annað en það að ráða bót á þeim erfiðleikum, sem hækkun krónunnar kann að valda. Það verður ekki sjeð fyrirfram, hverjir helst verða fyrir þeim erfiðleikum eða hverjum þurfi helst að rjetta hjálparhönd, og því síður að hve miklu leyti.

Hv. þm. reyndi að mæla þessari till. bót. En til þess varð hann að búa til aðra till., sem hann hjelt fram, að fæli að einhverju leyti í sjer sömu hugmynd, og sagði, að svona hugsun vekti fyrir sjer. Jeg get ekki rætt aðrar tillögur en hjer liggja fyrir. Eftir till. hv. 1. landsk. (JJ) á að borga þessa upphæð út. Þetta er skiljanlegt frá sjónarmiði hv. flm. (JJ), því ef á að strika út 1/5 af lánsupphæðinni, mega lánsstofnanirnar ekki við því, nema þær fái sömu upphæð úr ríkissjóði samtímis, annars yrðu þær gjaldþrota.

Það hefði mátt hugsa sjer, eins og háttv. 4. landsk. talaði um, að lækka árgjöld skuldunautanna gegn sömu greiðslu úr ríkissjóði. En það er ekki þetta, sem stungið er upp á í till. hv. 1. landsk. Ef þessi till. er ekki borin fram af of mikilli vanþekkingu, þá held jeg hugsun hv. flm. sje sú, að ef þetta yrði samþykt, þá fylgdi gengishækkun svo mikill baggi fyrir ríkissjóð, að stjórnin hlyti að standa á móti henni í lengstu lög. Jeg held, að það sje einhver svona bragðahugsun, sem á bak við þetta liggur. Jeg fyrir mitt leyti er fús til þess, að þeim ríkisgróða, sem fást kann af þessum veðdeildarlánum vegna gengishækkunar, sje varið til þess að draga úr þeim erfiðleikum, sem slík gengishækkun kann að valda. En jeg tel ekki rjett að ráðstafa því fje fyr en sjeð verður, hvort slíkur gróði fellur til. Það er engin vissa fyrir því enn. En hvenær sem gerðar eru einhverjar slíkar ráðstafanir fyrirfram, opnast einhver leið fyrir þá, sem nota vilja fje sitt í gróðaskyni.

Hv. 1. landsk. hafði eftir mjer, að menn, sem ættu peninga, gætu gert margt annað við þá en að leggja þá í fasteignalán. En menn, sem eiga óveðsettar fasteignir, geta tekið lán út á þessar eignir og fengið síðan niðurfærslu á þeim lánum um 20% eftir till. Jeg skal taka dæmi. Maður tekur 10 þús. króna lán út á fasteign og leggur fjeð á innlánsskírteini. Hann verður að vísu að gjalda nokkrar krónur í rentumismun, þar sem rentur í veðdeildinni eru 51/2%, en á innlánsskírteini 5%. En svo rennur upp sú vonarstund, þegar 20% af skuldinni er strikað út. Skuldin er þá orðin aðeins 8000 krónur, og maðurinn getur greitt hana að fullu, en á þá eftir 2000 krónur, sem ríkissjóður hefir greitt, en hv. 1. landsk. útvegað. En það eru ekki slíkir menn, sem eiga fasteignir, er þurfa á hjálp ríkissjóðs að halda vegna gengishækkunar. Þetta og þessu líkt munu menn altaf reka sig á, ef fara á að bæta fyrirfram væntanlegan hnekki af gengishækkun.

Hv. 1. landsk. gaf í skyn, að þær ráðstafanir, sem jeg hefi verið fylgjandi, um að menn gætu fengið lán út á fasteignir, væru gerðar af mjer í eiginhagsmunaskyni, af því að jeg er meðeigandi í verslun, sem selur byggingarefni. Jeg get ekki reiðst þessum ásökunum, því að það fór fyrir þessum hv. þm. eins og vant er, að þegar hann kom fram í miðja ræðuna, var hann búinn að gleyma því, sem hann sagði í byrjun. Hann fór þá út í nágrannalöndin og gat þess, hve mikil áhersla væri lögð á það þar að útvega mönnum aðgang að fasteignalánum. Hann lýsti þessu rjett og skynsamlega, og þeir, sem ekki vilja altaf leita eigingjarnra hvata hjá náunganum, geta sjálfsagt fundið hjá mjer sömu hvatir eins og hjá löggjöfum og bankavöldum í Danmörku og Þýskalandi. — Það sýndi vanþekkingu hv. þm. (JJ), þegar hann fór að tala um lánskjörin í Danmörku, því að þar voru einmitt boðin mjög svipuð kjör og hjer, rjett áður en krónan hjá þeim fór upp í gullverð.

Það er varla svaravert, sem háttv. þm. margendurtók, að þessi 20% niðurfærsla væri ekki gjöf, heldur endurgreiðsla. Jeg hefi aldrei heyrt talað um endurgreiðslu, nema eitthvað væri borgað fyrst. En hjer er ekki neinu slíku til að dreifa. Eftirgjöf er þetta og annað ekki.

Þá spurði háttv. þm., hví jeg hefði ekki látið fylgja frv. till. um ráðstöfun gengisgróðans. Það er ósjeð, hver sá gróði verður, og jeg álít ekki rjett að ráðstafa honum til að draga úr óþægindum vegna gengishækkunar fyr en þau eru komin fram. Hann reyndi að mæla því bót, að þetta lenti hjá húseigendum og sagði, að leiga í nýjum húsum væri ekki of há. Þessi ummæli stafa af ókunnugleika hjá hv. þm. Húsaleigan í nýju húsunum er of há, þó að húseigendur fái ekki beinlínis of mikið greitt. Þessi háa húsaleiga stafar af skorti á lánsfje með viðunanlegum kjörum. Tilgangurinn með þessu frv. er að gefa mönnum kost á hagfeldari lánum, svo að húseigendur geti sett húsaleiguna lægri. Það er því af vanþekkingu mælt, að ekki hafi komið fram önnur till. til þess að lækka húsaleiguna í kaupstöðum en frv. hv. þm. (JJ) 1923, sem var svo fjarstætt, að ómögulegt var að samþykkja það. En að baki því lá þó sú skynsamlega ósk að vilja færa húsaleiguna niður.

Hv. 1. landsk. reyndi ekki í sinni löngu ræðu að mæla því bót, að hann hefir farið hjer fram á að skattleggja landsmenn um á 2. milj. kr. til þess að gefa væntanlegum lántakendum. Hann hefir ekki gert neina tilraun til að rjettlæta þá frammistöðu. En það vita allir, að fyrir tapi verða þessir lántakendur ekki, þó að krónan hækki, nema arðurinn af eignum þeirra verði of lítill að krónutölu.