17.05.1927
Neðri deild: 78. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

Halldór Stefánsson:

Eins og háttv. form. fjhn. (KIJ) gat um, hefir þetta frv. ekki verið tekið formlega fyrir á nefndarfundi, og eru mínir kunnleikar við það ekki eldri en frá deginum í gær. Það hefir lítið verið getið um ástæðurnar fyrir þessu frv. Frsm. gat þess að vísu með almennum orðum, að það væri borið fram vegna þeirrar kreppu, sem væri í landinu, en hæstv. forsrh. vísaði til ástæðna, sem fram hefðu verið færðar í fyrra. Þeir, sem minnugir eru, kannast kannske við þær ástæður, en jeg man þær ekki. Jeg get búist við, að ástæðurnar sjeu líkar nú og í fyrra, en eitt er þó breytt. Nú er búið að ráðstafa endanlega seðlaútgáfunni, en það mál var óafgreitt í fyrra. Jeg sje ekki, að kreppan þurfi að vera nokkur sjerstök ástæða nú. Íslandsbanki hlýtur að geta fengið frá seðladeildinni það fje, sem hann eftir atvikum á rjett á að fá. — Hæstv. forsrh. gat um, að samskonar undanþága hefði verið veitt í fyrra. Það, sem gerðist í fyrra í þessu máli, er þá að endurtaka sig nú, svo að manni gæti dottið í hug, að sama sagan hjeldi áfram að endurtaka sig eitthvað lengur. Mjer finst óviðkunnanlegt, úr því búið er að ráðstafa seðlaútgáfunni, að verið sje um óákveðinn tíma að halda við annari tegund seðla, fram yfir það, sem lög standa til. Jeg get því ekki verið með þessu frv.