17.05.1927
Neðri deild: 78. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil aðeins gera grein fyrir, hvers vegna þetta brjef frá Íslandsbanka kom svona seint frá mjer. Mjer barst það nokkru fyr, en fjhn. hafði þá Landsbankamálið til athugunar, og jeg vildi ekki afhenda henni brjefið fyr en hún hefði lokið nál. sínu í því máli. Hvað það snertir, að þetta sje flaustursverk, þá er þetta einfalt atriði og frv. komið fram fyrir nokkru síðan. (HStef: Mjer var sýnt það í gær). Já, menn verða nú oft að taka ákvarðanir án þess að hafa margar nætur til umhugsunar. Og hvað sem segja má alment um afgreiðslu mála síðustu dagana, þá sje jeg ekki ástæðu til að vísa frv. frá þess vegna. Þá spurði hv. þm., hvort jeg mundi vilja fara eins með þetta mál á næsta þingi. Því hefi jeg þegar svarað á þá leið, að þá yrði bankaráðið við Landsbankann tekið til starfa, og það væri sjálfsagður milliliður til þess að íhuga þetta mál og gera um það uppástungur. En jeg lít svo á, að taka verði mikið tillit til þess, hvað það leggur þá til þessara mála.