25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg ætla mjer ekki að fara að karpa mikið við hv. þm. Barð. (HK). Hann hefir nú, enda þótt hann vilji ekki draga úr ábyrgð manna, borið fram brtt. og gert grein fyrir henni án þess að lesa 30. gr. Þar er tiltekið, að ef hreppsnefnd vanrækir skyldustarf sitt, þá eigi hún að sæta ábyrgð. En nú vill hv. þm. nema þetta burt, í fyrsta lagi alla greinina, og hepnist það ekki, þá með því að nema þó að minsta kosti burt næstsíðustu málsgreinina, þar sem talað er um að sekta hreppsnefndir, ef þær vanrækja starf sitt. Þetta kalla jeg að draga úr ábyrgðinni. Jeg ætla samt ekki að deila meira um það. En hvor heldur háttv. þm. (HK) að eigi meiri ábyrgð að sæta, sá, sem hefir lagt 5 aura til tryggingar einhverju, eða ef tryggingin væri 100 kr. ?

Jeg ætla ekki að svara hnútum hv. þm. (HK) í minn garð, en jeg hygg, að hann hafi gott af að lesa 30. gr. aftur. Þá mun hann sjá, hvor okkar hefir á rjettu að standa.