25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús Torfason:

Jeg stend aðeins upp til þess að bera af mjer sakir. Því er sem sje haldið fram, að jeg hafi dróttað því að skattgjaldendum þessa lands, að þeir svikju framtalið. Jeg sagði ekkert í þá átt. En jeg sagði, að ef sveitarsjóðirnir fengju hluta af eignar- og tekjuskattinum, þá mundi minka nöldrið út af því, að ekki væri fulltalið fram. Jeg vil í því efni skírskota til greinar í blaði einu hjer í bæ, greinar, sem er ein sú svartasta, er um þetta efni hefir verið skrifuð. Er þar sjerstaklega veist að bændum. En jeg gerði engan mun á kaupstöðunum og sveitunum. Mjer datt það aldrei í hug, enda er jeg alt of ókunnugur til þess að geta dæmt um það.