14.02.1927
Efri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

22. mál, skipun prestakalla

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Mjer þætti vænt um, ef hugsanir þær, er hv. 1. landsk. (JJ) ljet í ljós um fjárhag landsins í síðustu ræðu sinni, væru vakandi í hvert skifti, sem till. kemur fram um aukin útgjöld ríkissjóðs. En í þessu máli er þeirra ekki þörf, því hjer er ekki að ræða um aukin útgjöld, heldur að halda því við, sem er. Að því er snertir spurninguna um að breyta takmörkum þessa prestakalls, þá skal jeg geta þess, að málið heyrir ekki undir mína stjórnardeild, og mun jeg því ekki svara því að sinni. En þetta er þess eðlis, að jeg álít rjettara, að það sje athugað rækilega í nefnd, en ekki sje verið að kasta fram um það lítt hugsuðum skoðunum í þingræðu.