14.02.1927
Efri deild: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

22. mál, skipun prestakalla

Jónas Jónsson:

Það er svo sem auðvitað, að hæstv. forsrh. skilur ekki, hvert það skip stefnir, sem hann er að sigla í strand. Hann virðist ekki gera neinn mun á skipulagi um stundarsakir og lögum. Þótt ráðherrann geri sjer ekki háar hugmyndir um hæfileika þingdeildarmanna, þá má hann þó vita, að þeir kunna að gera mun á föstu skipulagi og bráðabirgðafyrirkomulagi. Ef ráðherrann hefir átt við að spara fje til ræktunar landsins, er hann var að tala um sparnað, þá sje jeg ekki ástæðu að skifta um skoðun í því efni. Þar vill hann spara og telur þá eyðslu vitleysu, en vill kasta út fje í sendiherra á Spáni og fleiri slík alóþörf embætti. Yfirleitt hugsar stjórnin ekki um annað en að fá embætti stofnuð, án þess að gera sjer grein fyrir því, hvort fjárhagur ríkissjóðs þolir það eða ekki.