30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

22. mál, skipun prestakalla

Magnús Jónsson:

Jeg var nú kallaður frá, svo að jeg hefi ekki heyrt alt, sem sagt hefir verið um þetta mál; skal heldur ekki lengja mikið umr. En jeg hefði þó heldur viljað leggja frv. lið, sem jeg tel sama og leggja móti brtt. hv. þm. Borgf., því þær eru vitaskuld ekki til neins annars en að losna við þetta frv. Hv. þm. Borgf. — og jeg býst við hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) — sýnist vera nokkurn veginn sama yfirleitt, hvernig prestsþjónustu sje fyrir komið á þessu svæði, bara hægt sje að losna við, að prestakallið verði endurreist. Þeir voru ósköp rólegir meðan þetta mál hafði sinn gang hjer í deildinni, — ánægðir, þar sem átti að leggja niður Þingvallaprestakall á móti. En þegar þeir sjá, að þessi fjarstæða var feld, þá finna þeir upp á annari fjarstæðu, til þess að losna við annað prestsembætti. Þetta eru hvatirnar, sem liggja til grundvallar, en síður áhuginn fyrir því að koma betra skipulagi á prestsþjónustu í Brautarholts- og Lágafellssóknum.

Annars er það auðsjeð, að þessi hv. þm. (PO) hefir álitið það þó skynsamlegra að leggja Þingvallaprestakall undir Mosfell heldur en það, sem þessar till. fara fram á. Að öðrum kosti hefði hann komið með þessar tillögur strax og óskað frekar samþ. á þeim heldur en að leggja Þingvallaprestakall undir Mosfell, ef honum hefði verið áhugamál að koma prestsþjónustunni þannig fyrir. En nú er háttv. deild búin að fella það mál, og þá ætlast hv. þm. til, að hún taki það næstbesta. Nei, þetta er ekkert annað en það, sem kalla má þingklókindi; þegar menn eru hræddir við eitthvert mál, þá er að finna einhverja krókaleið; ef ekki er hægt að koma beint framan að málinu, þá að koma á snið eða aftan að. Það ræður nú af líkum, að rökin yrðu eftir því, sem málavextir voru til. Eitt var það, að í Dalasýslu væru tíu kirkjur, en ekki nema tveir prestar. Þetta er alls ekki rjett. Það eru þrjú prestaköll í Dalasýslu. Það er að vísu satt, að um nokkurra ára skeið hefir ekki fengist prestur í eitt þeirra, og menn því orðið að búa við algerlega ófullnægjandi prestsþjónustu. Jeg hefi farið um þessa sveit og orðið var við ákaflega mikla óánægju út af því að geta ekki haft prest í Staðarhólsþingaprestakalli; enda má nærri geta, að þörf er á því, þar sem presturinn í Hvammi í Hvammssveit á að þjóna öllum söfnuðinum kringum Klofning út með öllum Hvammsfirði, inn með öllum Gilsfirði, inn fyrir Gilsfjarðarbotn og út í Geiradal.

Það er ekki hægt að benda á þetta sem neina fyrirmynd; enda er það ekki þingið, sem ákveður þetta, heldur vill enginn um prestakallið sækja. Annars hefi jeg fyrir satt, að það muni nú bráðlega rætast úr þeim ágalla, sem mestu hefir valdið um, að ekki hefir fengist prestur þangað, svo að menn fái þar fullnægjandi prestsþjónustu. En núverandi ástand er engin fyrirmynd, og þýðir ekkert að vitna í það.

Þá kom hv. þm. með dæmi um það, að víða þyrftu prestar að þjóna miklu fleiri kirkjum en hjer er talað um. Er það mála sannast. Mjer er sagt, að þessar mörgu kirkjur, sem Grundarþingaprestur hefir þjónað, sjeu svo að segja hver við aðra. Það er vitaskuld ekki það, sem veldur erfiðleikum út af fyrir sig, að kirkjur eru margar. Slíkt eru bara leifar frá eldri tímum; og engir vilja sleppa sinni kirkju, þótt margar tilraunir hafi verið gerðar til þess að leggja niður eitthvað af þeim. Menn fallast á, að kirkjurnar sjeu of margar, en samt vill enginn missa sína kirkju. Mjer dettur ekki í hug að halda fram, að Reynivallapresturinn gæti ekki þjónað 5 kirkjum t. d. í Kjósinni, ef þær væru allar í hvirfingu.

Það er þetta, sem jeg vil skjóta til hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), þar sem hann mun aðallega hafa gengið út frá vegalengdum. Það er alveg rjett, að það eru miklu meiri vegalengdir sumstaðar annarsstaðar, en þar er venjulega strjálbýli mikið, kannske mjög fáir bæir mjög langt frá heimili prestsins, sem ekki getur komið til mála að gera að sjerstöku prestakalli, aðeins af því að þeir eru svo fáir. Það er ákaflega mikill munur, hvort það er sókn með 7–8 bæjum, sem er 5 tíma reið í burtu frá prestinum, eða það er sókn með upp undir þúsund manns. Jeg þori ekki að fullyrða það, en jeg get búist við því, að í Brautarholts- og Lágafellssókn sje upp undir þúsund manns. Í Lágafellssókn munu vera á að giska 700 manns. Það er ekki lítill munur og t. d. á sumum sóknum á Vestfjörðum, svo sem Skálavík, þar sem presturinn þarf kannske ekki að koma nema einu sinni eða tvisvar á ári.

Það fyrsta, sem jeg nefndi úr röksemdaleiðslu háttv. andmælenda, er alveg skakt; prestaköllin eru 3 en ekki 2 í Dalasýslu. Í öðru lagi er það skökk röksemd, að hjer megi sameina, af því að sumir prestar þjóni mörgum kirkjum þar, sem greiðar eru samgöngur. Þriðja röksemdin er líka ónýt, að einstöku prestar eigi lengra á sínar annexíur en hjer er um að ræða, af því að það er ómögulegt að stinga upp á öðru fyrirkomulagi en er. Það mun vera hjer um fullkomlega meðalprestakall að ræða, og jeg býst við, að fólksfjöldinn sje ofan við meðallag.

Það er nú komin dálítil reynsla á þetta að því leyti, að þegar þetta prestakall losnaði, átti að leggja part af því undir Reynivallaprestakall og spara með því örlitla upphæð. Ekki var hægt að skylda prestinn til neins slíks, og hann vildi ekki taka það að sjer. Jeg býst við, að honum hafi ekki þótt það mjög þægilegt, og þó er Brautarholt, sú annexía, sem hann neitaði að taka að sjer, miklu nær og þar að auki miklu fámennari sókn. Er því augljóst, hvernig honum mundi hafa litist á, ef hann hefði átt að taka við Mosfellsprestakalli öllu, — jeg kalla það alt, þótt Viðey sje undanskilin; sennilega þó dálítill ljettir að því.

Þá kem jeg að akveginum inn í Kjós. Það mundi að vísu ljetta undir, ef akvegur kæmi að Reynivöllum, En sá er galli á þessum bílferðum, að þær eru nokkuð dýrar. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. Borgf. hefir háar hugmyndir um auðæfi presta og ofurtekjur og telji þá geta farið til og frá í sínum eigin bílum. Nei, það er ekki að tala um, að presturinn noti bíl nema hann geti setið um fastar ferðir. En jeg býst satt að segja ekki við svo mikilli umferð inn í Kjósina, að hægt yrði að grípa ferð hvenær sem er. Það er á vissum tímum árs, sem þessi akvegur yrði notaður mikið, en venjulega mundi þar verða fáferðugt. Og að taka bíl öðruvísi en með föstum ferðum er útilokað fyrir prestinn; það er svo dýrt.

Mjer kemur líka einkennilega fyrir sjónir með þennan bílveg. Það er ekki langt síðan jeg átti tal í nefnd við vegamálastjóra einmitt um væntanlegan akveg um Borgarfjörð. Mjer heyrðist á honum, að helst væri í ráði að leggja veginn ekki lengra en að Útskálahamri, hafa ferju yfir Hvalfjörð og leggja síðan veg yfir Ferstikluháls, Svínadal og Dragháls. — Þetta er ný hugmynd, og verði hún ofan á, með að hafa ferju yfir Hvalfjörð og veg ekki lengra en að Útskálahamri, þá er þessi mikla vegarbót, að leggja veg inn fyrir Hvalfjörð, úr sögunni. (PO: Jeg skal upplýsa þetta). Þess þarf ekki; vegamálastjóri hefir upplýst það. En vel getur verið, að vegur verði lagður að Reynivöllum í Kjós með tíð og tíma. Þetta er því aðeins yfirskinsástæða, að þetta sje ljettara fyrir Reynivallaprestinn. — Hann mundi lítil not hafa af bílveginum, því að þótt menn þjóti eftir lækni í bíl, þá efast jeg um, að bændurnir kæmu með bíl í hvert skifti og presturinn þyrfti að skíra hjá þeim eða gegna öðrum prestsverkum. Þetta er því aðeins tilliástæða til þess að gabba háttv. þingmenn.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði þann mikla sannleika í þessu máli, að presturinn á Reynivöllum mundi ekki verða eilífur í sínu embætti. Hann er ekki gamall maður og því vonandi, að hann geti gegnt því sem lengst. Þetta er að vísu hálfgerður framtíðardraumur, en það eru ekki öll lög, sem samþ. eru á Alþingi, sett til eilífðar.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta meira, þótt mjer finnist ekkert það hafa komið fram í meðferð málsins, sem benti á heppilega lausn þess. Og þó sumum finnist ástæða til þess að losna við þetta embætti, sem nú er búið að endurreisa, þá vona jeg, að hv. þm. láti ekki glepjast af því.