29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg gæti í raun og veru látið nægja að vísa til nál., til þess að gera grein fyrir því, af hverju nefndin vill fella þetta frv. — Ef þetta land er selt undan Mosfelli, er ekki lengur hægt að búa þar nema litlu búi. Graslendi heima fyrir er lítið, einkum þar sem stór spilda, hinn svo nefndi „Víðir“, hefir verið plægð og sumt selt burtu. Þetta er í órækt, og þótt einhverntíma kæmist rækt í það, yrði það notað til slægna, en ekki til beitar. Búfjárhagar heima við eru svo litlir, að beita verður á heiðarlandið, og eigi ábúandinn sauðfjenað, er ekki í annað hús að venda með hann. Það sýnist líka meira en lítið undarlegt að leggja til, að rýrð sjeu gæði jarðarinnar til stórra muna, um leið og jörðin er á ný gerð að löglegu prestssetri. Ef einhverntíma kæmi þarna duglegur klerkur, sem vildi hafa full not jarðarinnar, hygg jeg, að honum þætti í þessu lítill búhnykkur. — Áður var heyjað mikið á þessu svæði, sumpart í Bringum, sem þá voru ekki sjerstakt býli, og sumpart í því landi, sem nú á að selja. Svo sem menn vita, vex valllendi betur sum ár, en önnur ár spretta mýrar ágætlega, þótt valllendisengjar sjeu gagnslausar. En vestan í heiðarlandinu er ágætt mýrarengi, og til þess tekur söluheimildin. Nú hagar svo til, að sumstaðar er mjög ógreiðfært um land þetta, og því hefir verið minna heyjað þar en hægt væri, ef vegur lægi um landið.

Nú er verið að leggja veg, sem að vísu nær enn sem komið er aðeins að Laxnesi, en verður lagður á næstu árum austur Mosfellsheiði og kemur einmitt til með að liggja um þetta engjasvæði, sem söluheimildin nær til.

Sá, sem búið hefir á Mosfelli, hefir að jafnaði leigt meira eða minna af þessu engjasvæði til slægna og haft af því nokkrar tekjur, auk þess sem áður var títt, á meðan stórbú var rekið á Mosfelli, að sækja þangað heyskap. En að hægt hefir verið að leigja til muna af slægjum þessum síðari ár, er af því, að núverandi ábúandi er fátækur maður, sem ekki hefir haft kraft til þess að sækja heyskap um svo langan veg. En kæmi þangað athafnamaður, sem mikið ljeti til sín taka, mundi honum ekki veita af einhverju af þessu engjalandi.

Nú eru færðar fram fyrir þessari kaupbeiðni þær ástæður, að sveitin þurfi að fá þennan hluta heiðarinnar fyrir upprekstrarland. En það hefir nú verið svo um langt skeið, að sveitin hefir notað þetta land fyrir afrjett og fjeð fengið að ganga þar óáreitt, nema hvað stuggað hefir verið við því af mönnum þeim, sem verið hafa þar við heyskap. Mundi því sveitin nota þetta land eftir sem áður fyrir afrjett, þó að ekkert yrði af kaupunum.

Áður greiddi sveitin um nokkurra ára skeið prestinum á Mosfelli 25 kr. á ári fyrir að mega nota heiðarlandið fyrir afrjett. En svo hætti sveitin að greiða gjald þetta, sumpart vegna þess, að bændum þótti óþarft af presti að selja slægjur, og heldur ekki það mikið gagn af þessu landi, að ástæða væri til að borga fyrir það, nema ef þeir fengju að hafa öll not landsins. Nú hafði verið heyjað mörg hundruð hesta í þessu landi og því engin von til, að prestur vildi sleppa þeim tekjum, sem hann fjekk í slægjukaup, fyrir þá litlu upphæð, sem sveitin greiddi.

Jeg verð að halda því fram, að það geti ekki komið til neinna mála að selja þetta heiðarland undan jörðinni, nema þá að horfið yrði að því ráði, sem jeg tel þó ólíklegt, að öll jörðin verði seld. En það yrði vitanlega ekki gert nema með samþykki Alþingis. En það, að selja alla jörðina, mundi jeg telja sjálfsagðara heldur en að rýja hana þeim einu gæðum, sem hún hefir til frambúðar.

En sjerstaklega finst mjer þó hjákátlegt að fara fram á að selja allmikið land undan jörðinni, þegar samhliða er á ferðinni stjfrv. um að endurreisa Mosfellsprestakall og að hjer er um jörð að ræða, sem er prestssetur. Auk þess er býli bygt úr landareigninni, sem notar mikið þetta land frá heimajörðinni, og þess vegna enn síður forsvaranlegt að verða við þessari kaupbeiðni.

Annars hefir allshn. ekki viljað annað en að tryggja það, að jörðin gæti haldist áfram með gæðum sínum og gögnum, að hægt verði að búa á henni.

Að síðustu vildi jeg geta þess, að nú er búið að selja undan jörðinni 120 dagsláttur, sem áður var ágætt slægju- og beitiland fyrir búpening þann, sem heima gekk, svo að þess vegna er enn meiri ástæða til að rýra jörðina ekki frekar en orðið er.

Tel jeg svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vænti, að hv. þdm. geti fallist á þá till. allshn. að fella frv. þetta.