29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Pjetur Þórðarson:

Það var kannske rjettara og vissara af hv. frsm. (JörB) að taka það fram, að nefndinni hefði ekki gengið nema gott eitt til að ráða málinu á þann veg, sem hún hefir gert, enda líklegt, að enginn muni bera brigður á það. — En það er einkennileg tilviljun, að nefndin hefir hallast að þessu ráði, þar sem hjer er að ræða um almennings gagn, ef þetta land verður samkvæmt frv. tekið og selt frá jörðinni. Jeg get skilið þá menn, sem er illa við að selja opinberar eignir í hendur einstaklinga; en hitt get jeg ekki skilið, hvers vegna það er svo fráleitt að selja jarðarpart í hendur heilu hreppsfjelagi til almennra opinberra nota. öll röksemdaleiðsla nefndarinnar gengur út á að sýna og sanna það, að hjer sje um svo mikla hagsmuni að ræða fyrir væntanlegan prest á Mosfelli, og að það sje viðsjárvert eða jafnvel hættulegt að láta þá hagsmuni lenda hjá sveitarfjelaginu, sem hann á að lifa í. En líkindin hafa sýnt, eftir því sem upplýst er í málinu, að hjer sje verið að leggja á meiri hættu á þann hátt, að notin af þessu landi og aðalhagnaðurinn lendi í einstakra manna höndum, — jafnvel annara en hins væntanlega prests sjálfs.

Hjer hefir ekki verið gerð nein grein fyrir því, hversvegna búskapurinn á þessu prestssetri geti ekki blessast, þótt þessi hluti jarðarinnar yrði seldur. — Mjer er kunnugt um það, að á Mosfelli eru nú hafðar 8 kýr og reyndar fleiri nautgripir, og þó dálítið sauðfjárbú, þótt þetta land sje ekki notað. Því að það er alkunnugt eftir þeim gögnum, sem hjer liggja fyrir, og umsögn hv. frsm. sjálfs, að þetta land, sem um er að ræða, er alls ekki notað neitt frá Mosfelli, því að einstökum mönnum eru leigð notin af þessu landi. Um mjög langan aldur hefir það ekki verið notað frá jörðinni sjálfri. Eftir því, sem fram hefir komið við umræðurnar, þá eru mest líkindi til, ef landið verður ekki selt sveitinni, að það lendi í hendur einstakra manna, sem girði það síðan. Þeir, sem óska eftir að fá landið leigt, munu nota sjer það á þann hátt, að aðrir hafi þess engin not. Það er þessi mikli munur á því að selja einstökum mönnum landið á leigu og því að fá það heilu sveitarfjelagi til eignar og umráða. Ef um það væri að ræða að selja þetta heiðarland einstökum mönnum, þá skildi jeg niðurstöðu nefndarinnar, enda þótt líkindi sjeu til, að landið verði ekki notað frá jörðinni. (JörB: Það er alls ekki rjett, sem þingmaðurinn er að segja!). En ef á að selja hreppsfjelaginu, þá get jeg ekki skilið, hvers vegna ímyndaðir hagsmunir prests eins í framtíðinni eigi að ganga fyrir þörf til almenningsnota.

Þetta hugsa jeg flestum deildarmönnum sje auðskilið mál, að hjer gæti verið um það að ræða að synja einu hreppsfjelagi að fá keyptan fullu verði jarðarhluta, sem það opinbera hefir í sjálfu sjer engin hlunnindi af að eiga, jafnvel þótt þarna kæmi svo duglegur prestur að jörðinni, að hann gæti notið einhverra hagsmuna af landinu fram yfir það, sem nú er og hefir verið um langan tíma. — Nei, það er auðheyrt líka á rökstuðningi hv. frsm. (JörB), að honum vefst tunga um tönn einmitt við að gera grein fyrir ástæðum nefndarinnar, — sem er eðlilegt, því að hjer er hann ekki að berjast fyrir almennum hagsmunum, heldur fyrir einstaklings hagsmunum. Jeg vona, að hann viðurkenni þetta.

Jeg skal verða fyrstur manna til þess að viðurkenna það rjett, sem hv. frsm. tók fram, að nefndinni gengi ekki annað en gott til um þetta; en hún hefir farið ofurlítið vill vegar, og nú ætti hún að snúa aftur. Jeg vona, að það sje ekki orðið of seint enn og að hún muni nú jafnvel vilja falla frá þessari ákvörðun sinni þegar í stað.