29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Mjer finst lítið að græða á umr. um þetta mál. Þær eru ekkert annað en staðhæfingar á móti staðhæfingum, og því til lítils gagns fyrir þá, sem ekki þekkja landið. Enginn hefir getað borið á móti því með rökum, sem jeg sagði um landið. Jeg sagði, að Mosfellspresturinn verði að hafa sauðfje uppi í Bringum og mann til að hirða það þar á vetrum, og mun það verða ærið kostnaðarsamt. Þá er það skakt, að ekki sje notað til beitar það land, sem á að selja. Þá má einnig hafa þar stórkostleg slægjunot. Mjer hefir sagt vel kunnugur maður, sem lítur algerlega hlutlaust á þetta mál, að ef vegur verði lagður þarna, megi heyja 1000–2000 hesta í þessu landi. En í Bringum og heimalandi ekki meira en ca. 400 hesta. Ef þarna verður býli áfram, — hvaða grasnyt á þá bóndinn að hafa? Hv. flm. sagði, að lýsing jarðarinnar, sem jeg las upp, væri ófullkomin og ábótavant. Lýsinguna fjekk jeg uppi í stjórnarráði og bygði hana á lýsingu undirmatsmanns í Mosfellssveit. Hv. flm. getur lesið hana þar sjálfur, og mun hann þá komast að raun um, að engu orði er breytt. Það er ekki venja mín að túlka mál mitt eða kjósenda minna með ósönnum gögnum. Fari jeg skakt með, er það afsökun mín, að það er í annara orða stað.

Hv. flm. viðurkennir, að ekki hafi verið ákveðin landamæri milli Jónssels og Bringna og þess lands, sem ætlað er að selja. Og það þori jeg að fullyrða, að aldrei hefir það verið samþykt á Alþingi áður að selja jörð án þess að vita, hvar landamæri hennar eru. Hv. flm. fer fram á, að þm. greiði því atkv., sem þeir vita alls ekkert um. (ÓTh: Það væri þá alveg nýtt!). Jeg vildi þá heldur vita fyrst, hvað á að selja.

Hv. flm. drap á, að lítil not hefðu verið að þessum slægjum. Það hefir þó undanfarin ár verið heyjað þar af öðrum um 400 hestar, og hefir þó ekki náðst til þess lands, þar sem slægjur eru bestar. Úr því mundi rætast, er vegurinn væri kominn. Það liggur í hlutarins eðli, að atvinnumálaráðuneytið ákveði landamæri milli heimajarðarinnar og hjáleigunnar, ef girt verður, en mjer finst viðkunnanlegra, að það væri gert áður en landið yrði selt. Annars er það ekki mitt verk að sjá um það; jeg á einungis að afla þeirra upplýsinga, sem hægt er.

Hv. flm. endar ræðu sína á þakklæti til hv. form. landbn. Hann kom fram eins og hann vildi styðja málstað hv. flm. og talaði um, að hjer væri um hagsmuni einstaklings að ræða annarsvegar og almenningsheill hinsvegar. Jeg verð að segja, að þetta er þó sá maður, sem sveitin hefir viljað fá til sín og stendur til að embætti verði stofnað fyrir. Jeg geri ráð fyrir, að sveitarmönnum sje ekki alveg sama um það, hvernig að honum er búið. Þessi maður á að vera sálusorgari þeirra, og ekki nóg með það, heldur einnig leiðtogi þeirra í andlegum og veraldlegum málum. Jeg held, að hv. þm. Mýr. (PÞ) hafi skotið yfir markið, er hann beindi því að allshn., að hún væri að túlka mál einstaklings hagsmuna á móti hagsmunum heils sveitarfjelags. Hagsmunir sveitarfjelagsins yrðu ekki meiri en nú, nema það sje tilætlun þess að ætla að nota landið sem fjeþúfu. Þar að auki er land þetta opinber eign og allshn. er því að gæta hagsmuna ríkissjóðs, en ekki einstaklings. Ákúrur hans get jeg því látið mjer í ljettu rúmi liggja, enda býst jeg ekki við, að hv. þm. sje fæddur með þeim gáfum, að hann þurfi síður upplýsinga í málinu en við hinir, enda er jeg hræddur um, að hann sje að túlka hagsmuni færri einstaklinga en við. Jeg get ekki orðið við þeim tilmælum hans að taka till. okkar aftur. Jeg get ekki vænst þess, að hann taki ræðu sína aftur, því að það er ógerningur, úr því að hún er einu sinni fram komin, en óneitanlega væri það best fyrir hann sjálfan, ef það væri mögulegt.