29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Magnús Torfason:

Fyrir 2–3 árum var jeg kvaddur til þess að gera fjárnám í Stíflisdal í Þingvallasveit. Var mjer þá sagt, að greiðfærasti vegurinn þangað væri að fara fyrst hingað til Reykjavíkur, upp að Laxnesi og þaðan að Stíflisdal. Sá jeg þá lönd þau, sem nú er í ráði að selja, og undraði mig mjög, hversu grösug þau voru. Eru þau áreiðanlega grösugustu löndin milli Hellisheiðar og Esju, þar til kemur að Kjalarnesi. Þegar jeg spurðist fyrir, komst jeg að því, að Þingvallabúar fara altaf þennan veg ríðandi eins og leið liggur upp með Leirvogsá upp hjá Mosfelli, að Fellsenda, sem er sömuleiðis landssjóðsjörð og hefir óákveðin landamerki, og að lokum um Stíflisdal til Þingvalla. Jeg vissi áður, að Þingvallasveitarbúar líta svo á, að það hafi verið mikil mistök að leggja veginn til Þingvalla yfir Mosfellsheiði, í stað þess að leggja hann yfir þetta blómlega graslendi, eins og líka vegamálastjóri lagði til. Jeg verð að segja, að mjer þykir merkilegt, að nú skuli eiga að selja hluta úr þessu landi, að eins óathuguðu máli og hjer virðist vera. — Kunnugir menn segja, að undir eins og þarna sje kominn vegur, verði sóttar þangað miklar slægjur úr Reykjavík. Þó er nú slegið töluvert í þessum löndum, enda þótt flytja þurfi heyið tveggja tíma leið á klökkum að Mosfellsheiðarvegi. Yfirleitt má ekki hrapa að þessu máli, fyr en staðgóðar upplýsingar eru fengnar um það.