29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg býst við, að þeir sjeu fleiri en jeg, sem eru í vafa um, hvernig þeir eiga að greiða atkvæði í þessu máli. Þó finst mjer rjett að greiða atkvæði með því til 3. umr. Mjer finst ekki liggja fyrir nægar upplýsingar enn sem komið er. Hjer stendur nokkuð sjerstaklega á. Það er um það að ræða að selja part úr væntanlegu prestssetri; því að líka er á ferðinni frv. um að endurreisa hið gamla Mosfellsprestakall. Ef það verður samþykt, er með þessu frv. verið að skerða prestssetrið og ganga á rjett þess prests, er við því tekur. Því þykir mjer rjett, að leitað sje umsagnar biskups áður en í þetta er ráðist, hvort hann telji rjett að skerða jörðina svo. Það vantar nægileg gögn fyrir því, að jörðin þoli slíka skerðingu. Jeg greiði því atkv. með frv. til 3. umr. í þeirri von, að þessar upplýsingar liggi þá fyrir.

Úr því að jeg stóð upp, ætla jeg að vekja athygli á öðru í sambandi við frv. Þegar fjárl. voru til umr., bar jeg fram till. um að rýmka heimild fyrir presta og aðra landseta ríkissjóðs að vinna af sjer landskuld með jarðabótum. Hún var feld. En með 2. gr. þessa frv. er gengið miklu lengra en jeg fór í till. minni. Þar eru ábúanda jarðarinnar áskilin þau hlunnindi um ræktun heimajarðarinnar, að hann ekki einungis sem aðrir landsetar ríkissjóðs hefir heimild til að vinna af sjer landskuldina, heldur á alveg á sjerstakan hátt að verja ákveðnu fje til ræktunar landi jarðarinnaf. Jeg vildi gjarnan mega vænta þess, ef þetta verður samþykt, að þá fengist líka samþykt, að landsetar ríkissjóðs, prestarnir, fái að einhverju leyti svipaða aðstöðu á sínum jörðum.