05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get vel skilið það, að þeir, sem vilja þessa sölu, sjeu ekki neitt sjerlega spentir fyrir því að hafa miklar umræður um hana, því að rök þau, er þeir færa fram þessu máli til stuðnings, stangast eins og hrútar. Jeg sýndi fram á það við 2. umr., hve mikið og gott land þetta væri bæði til heyskapar og beitar, og það hefir ekki verið hnekt einu einasta orði af því, enda var það ekki hægt. Jeg bygði þetta á sögusögn kunnugra manna og skírskotaði til matsmanns sveitarinnar. Það er því æðihart, að því skuli vera slegið fram og það staðhæft án nokkurra raka, að þetta sje ekki rjett, þegar ekki er hægt á nokkurn hátt að hnekkja því. Hv. flm. (ÓTh) sagði, að jörðin væri ekkert skert með því að selja þetta land undan henni. En hví sækist hreppsnefndin svo mjög eftir að fá það, ef það er einskis virði? (ÓTh: Það á fult matsverð að koma fyrir landið). Það eru skóbótaskifti og hundsbætur, sem jörðin á að fá í staðinn. Þá sagði hv. flm., og kastaði þá út mörsiðrinu og þóttist færa fram þau rök, sem riðu baggamuninn, að það stæði fyrir dyrum, að landið yrði leigt, og þá mundi leigutaki girða landið og væri það hreppsbúum mjög bagalegt. Þetta kemur nú ekki vel heim. Í öðru orðinu er sagt, að landið sje svo rýrt, að það sje eiginlega einskis virði, en í hinu orðinu er sagt, að það sje svo mikils virði, að leigutaka muni finnast tilvinnandi að girða landið. Það er nú ósköp sennilegt, ef landið er lítils virði, að leigutaki vilji kosta upp á að girða það fyrir nokkur ár. Því að það verður auðvitað ekki leigt til langs tíma af þessum presti, því að hann hefir ekkert leyfi til að binda eftirkomendur sína. Þetta er því bein sönnun þess, að land þetta er gott og getur sjerstaklega orðið gott og gagnlegt, ef rækt er lögð við það. Enda er það sögn nákunnugra manna, ef vegur verður lagður um landið, þá megi heyja þar frá 1500–2000 hesta. (ÓTh: Á veginum?). Þetta, eins og reyndar alt annað þessu máli viðvíkjandi, mun standa nokkuð öfugt í hv. flm. Getur hann ekki skilið, að greiðari aðgangur verður að slœgjunum, ef vegur verður lagður um landið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Það er búið að margsýna fram á það, að það á engan rjett á því að ná fram að ganga, og það er hreinasta ósvinna, að það skuli hafa verið borið hjer fram.