06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Pjetur Þórðarson:

Það er dálítið torskilið, hversu erfitt hefir verið að halda umræðunum um þetta mál innan hæfilegra takmarka gætni og stillingar. Fyrir mjer er málið ekkert kappsmál, síður en svo; en hitt þykir mjer ekki rjett að láta afskiftalaust, að þeir menn, sem hafa aðra skoðun á málinu, sæki það með ofurkappi. Mjer þykir ekki rjett að gera ekki það, sem unt er, til þess, að málið sje rólega athugað. Jeg gerði tilraun til þess við 2. umr., og það hafði góð áhrif þá. Jeg ætla því ennþá að gera samskonar tilraun — ekki af því að mjer falli það þungt, ef mín skoðun verður ekki ofan á — heldur vegna hins, að málið er einfalt og liggur ljóst frá öllum hliðum fyrir þinginu, og þess vegna þarf engrar frekari varúðar að gæta um það, að þingið geti nú þegar tekið ákvörðun um málið.

Það hefir verið bent á, að hv. þm. væru ókunnugir staðháttum og hvernig landi er þar í raun og veru háttað. Það getur vel verið, að einhverjir hv. þm. sjeu ekki svo kunnugir sem skyldi. En til þess að bæta úr því hefir legið fyrir uppdráttur af Mosfellsheiði, skýr og glöggur, og mjög hægt af þeim uppdrætti að gera sjer ljósa grein fyrir, hvernig þar hagar til.

Jeg er kannske kunnugri á þessum slóðum heldur en sumir aðrir háttv. deildarmenn. Jeg hefi bæði farið yfir heiðina norðanverða til Þingvalla og leiðina, sem farin er skáhalt yfir þetta land um miðbik þess, og svo loks sunnanvert, og jeg hefi oft komið að Mosfelli og í grend við það og gert mjer grein fyrir, hvernig landi þessarar jarðar er varið. Yfir höfuð hefi jeg komið að öllum hliðum þessa lands, sem hjer um ræðir, og yfir það þvert á einum stað að minsta kosti. Niðurstaða mín af samanburði á ýmsum hlutum þessa lands er sú, að það sje því verðmætara sem norðar dregur. En landið liggur langt frá heimajörðinni og verður því ekki að eins hagkvæmum notum og ella mundi. Það hefir verið mikið gert úr því af sumum hv. deildarmönnum, hve landið væri verðmætt, og bygt á því, að ríkið mætti hafa meiri hagsmuni af því í einhverri hugsanlegri framtíð heldur en nú. Hvenær og hverjum þeir hagsmunir verði til góðs síðar meir, er ekki íhugað. Hv. frsm. (JörB) og hv. 1. þm. Árn. (MT) halda því fram, að landið sje verðmætt fyrir ríkið til þess að hafa til miðlunar síðar meir, og jafnvel til nýbýla. En það skiftir litlu máli, í hverju verðmæti landsins er fólgið. Það verðmæti, sem í landinu býr, fellur ekki niður, þótt eigendaskifti verði, og enginn munur að því leyti, hvort það er í eigu Mosfellssveitar eða í eigu ríkisins. Munurinn er enginn og kemur ekki málinu við. Um verðmætið er ekki annað að segja en það, að selja verður landið því dýrara sem það er meira virði. Annað skiftir ekki máli að svo stöddu. Þetta má skýra betur: — Þótt ríkið hjeldi áfram að halda landinu í sinni eigu, kemur ekki til mála, að það yrði ríkissjóði til beinna hagsmuna, þannig að hann fengi meira afgjald af landinu en hann fær nú, heldur mundu þeir lenda hjá einhverjum smærri aðiljum. En jeg vil heldur, að þessir hagsmunir lendi hjá mörgum meðlimum þjóðfjelagsins heldur en hjá einum eða fáum einstaklingum. Jeg álit ekki rjett, að hagsmunir, sem verða af þessu landi framvegis umfram það, sem nú er, lendi eingöngu hjá væntanlegum presti að Mosfelli. Ef þetta prestakall verður endurreist, eins og nú liggur næst að ímynda sjer, þá verður vitanlega sjeð fyrir hagsmunum þess prests. Hann fær sín laun og ríkið fær ekki aðra hagsmuni af landinu undir hans umsjá en þá, sem fólgnir eru í því mati á brauðinu, sem gildir og koma fram í því að draga heimatekjur staðarins frá þeirri upphæð, sem prestlaunasjóður yrði annars að greiða presti. Þótt það væri rjett hjá hv. frsm., að væntanlegur prestur á þessum stað gæti á næstunni haft 1500–2000 kr. árlegar tekjur af landinu, þá er fjarri því, að jeg fallist á, að það sje sanngjarnt, að þessi prestur, hver sem hann verður, njóti einn þessara auknu hlunninda. Ríkissjóður getur ekki haft neinar tekjur af þeim, því það er alveg víst, að heimatekjur prestsins yrðu ekki reiknaðar að því skapi hærri.

Jeg hugsa ekki, að allir geri sjer svo bjartar vonir um framtíð þessa heiðarlands; þótt slíkar glæsivonir vaki fyrir hv. frsm. allshn. og reyndar hv. nefnd allri, þá er jeg viss um, að þær láta ekki nærri neinni hóflegri niðurstöðu í augum óvilhallra manna.

Því er svo varið um þetta mál, að það hefir ekkert að segja, hvers virði landið er með hliðsjón af því, hvort á að selja það ellegar ekki. Verðmæti þess verður metið af óvilhöllum mönnum og flutt, ef jeg mætti svo segja, heim að túni jarðarinnar sjálfrar.

Frá almennu sjónarmiði er eitt, sem kemur til greina. Það er mjög þýðingarmikið atriði um afkomu hverrar sveitar, er á landbúskap byggir, að eiga sjer góð afrjettarlönd. Nú á hjer hlut að máli sveit, nefnilega Mosfellssveitin, sem hefir mjög takmarkað og rýrt afrjettarland, en er hinsvegar stór sveit og fjölmenn, í hraðfara framför um búskap og hefir því tilfinnanlega þörf fyrir að eiga gott afrjettarland og sæmilega víðlent. Þetta land, sem komið hefir til orða að selja, liggur mjög vel við sem afrjettur fyrir þessa sveit og er alt innan takmarka hennar. Það er því ekki nema eðlilegur hlutur, að sveitarfjelaginu leiki hugur á að tryggja sjer afnotarjett af heiðarlandinu í þessu skyni. Það er alment viðurkent um þetta atriði, að tilvinnandi sje — og það hefir víða verið gert — að leggja niður býli til heiða til þess að tryggja bygðarmönnum stærra og betra afrjettarland, því að afrjetturinn er eitt af lífsskilyrðum hverrar sveitar. Til dæmis að taka er það alkunnugt um Borgarfjarðar- og Mýrasýslu, að þar má alveg greina sundur og raða niður fjárhagsafkomu einstakra sveita eftir gæðum þeirra afrjettarlanda, sem þær hafa.

Þetta skilyrði er í raun og veru, þótt sumum kunni að sjást yfir það, öllu þýðingarmeira fyrir afkomu sveitanna og viðhald og þróun landbúnaðarins heldur en sum þau úrræði, sem fastara er haldið fram á dagskrá þjóðarinnar.

Mjer er kannske þetta atriði þeim mun ljósara, sem það er mjög þýðingarmikið heima í minni sveit og spurning, hvort ekki er nauðsynlegt sveitarfjelagsins vegna að leggja niður gott býli lengst upp til fjalla til þess að auka landrými og landgæði afrjettarins. (JörB: Ekki prestssetur). Ekki prestssetur, segir háttv. sessunautur minn (JörB). Hjer er ekki um það að ræða að leggja niður neitt prestssetur. Ef hjer er verið að skerða verðgildi jarðarinnar, þá er því til að svara, að hagsmunir sveitarinnar af góðu afrjettarlandi eru rjettmætari en sá gróði, er einhver einstakur prestur kynni að hafa af þessu landi. En hinsvegar verður ekki annað sjeð en hagsmunir prests og hagsmunir jarðarinnar sjeu fulltrygðir og hvorumtveggja vel borgið með því, sem frv. sjálft kveður á um.

Lítum nú á þetta sveitarfjelag. Það er alkunna, að stórbúskapur er rekinn þar í sveitinni af einstökum mönnum. Þeir hafa tekið svo stór lönd til ræktunar, að skapast hafa þrengsli í heimalöndum, svo að til vandkvæða horfir ekki aðeins um beit handa sauðfje og hrossum, heldur jafnvel um sumarhaga fyrir kýr. Nú er sveitin í mikilli framför, og má búast við, að haldið verði áfram að taka stór svæði til ræktunar, hvar sem möguleikar og skilyrði eru fyrir hendi. En eftir því sem ræktaða landið vex, þrengist um sumarbeit fyrir skepnur. Um vetrarbeit er náttúrlega ekki að ræða.

Nú vakir það fyrir mjer, að þessi sveit þyrfti, þrátt fyrir túnræktina og breytt búskaparlag, sem túnræktinni fylgir, að gjalda varhuga við, að annar búnaður legðist með öllu niður, t. d. sauðfjárrækt. Það er enn langt þangað til sauðfjárbúskapur legst niður í Mosfellssveit. Og til þess að halda honum við þarf afrjettarland, og því er sveitinni nauðsyn að tryggja sjer umráð yfir þessu landi. En þó ekki væri þess vegna, gæti svo farið, að stórbændurnir, sem nú leggja mesta áherslu á túnrækt og mjólkurframleiðslu, reyni á einhvern hátt að tryggja sjer þetta land til beitar fyrir kýr sínar, er þrengist um haga í heimalöndum. Það er mjög mikil hætta, að því meiri áhersla sem lögð er á kúabúin, því ríkari verði þörf sveitarinnar eða einstakra manna, sem skara langt fram úr um framkvæmdir í búskap, að ná þessu landi á sitt vald til sumarbeitar. Það liggur því beint við að ætla, að landið kæmist á einhvern hátt undir yfirráð einstakra fárra manna, sem peningaráð hafa til þess að tryggja sjer það. Og það mun borga sig fyrir þá, þótt dýrt kunni að verða í fyrstu. En um leið útiloka þeir hagsmuni fjöldans, og því álít jeg landið betur komið í höndum sveitarfjelagsins í heild sinni. Með því móti mundu hagsmunirnir skiftast hlutfallslega jafnt niður á alla í sveitinni. Jeg veit, að engum háttv. þingdeildarmanni, sem hefir gert sjer far um að athuga málið með stillingu, dettur í hug að neita því, að þetta er kjarni þessa máls.