06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Þórarinn Jónsson:

Það er af sjerstökum ástæðum, að jeg kveð mjer hljóðs. Það er aðallega af því, að mjer virðist þetta mál rekið með meiri stóryrðum og hita en flest önnur mál. Jeg veit ekki, í hverju það liggur, og jeg hefi hvorki ástæður nje löngun til þess að grafast eftir því. Jeg hefi hent á lofti nokkur ummæli, sem fallið hafa. Það hefir verið kölluð „ósvífni“ að samþ. frv., alt lýst „ósatt“, sem fram hefir komið frv. til meðmæla, verðið, sem koma á fyrir landið, kallað „hundsbætur“, verið talað um „heiðingjatrúboð“ o. s. frv. Eftir þessu að dæma hlýtur að vera hjer um meira en lítið að ræða. Jeg get vel trúað, að hjer sje um gott land að ræða, eftir því sem jeg þekki til samskonar mála. Heiðalönd, sem prestssetrum fylgja, eru að jafnaði góð lönd, því að á uppgangstíð kirkjunnar eignaðist hún margar ágætar jarðir og ítök. En hvernig hefir verið farið með slík heiðalönd annarsstaðar? Þau hafa alstaðar verið seld undan prestssetrunum. Það er því ekkert undarlegt, þó að hjer sje farið fram á það sama. Það er líka svo, að hinar stóru og góðu jarðir, sem notaðar eru fyrir prestssetur, eru yfirleitt ver setnar en flestar aðrar jarðir. Það ætti því síður að vera ástæða til að halda í þessi lönd, þegar sveitarstjórnirnar þurfa að nota þau til annars. Hví á að halda í þetta land fremur en önnur álíka? Jú, það er sagt, að þarna megi stofna nýbýli, og ennfremur er sagt, að ef þetta land sje selt, þá sje jörðinni ekkert eftir skilið nema flag heima við bæinn. Þarna kemst nú rökfærslan í greinilega sjálfheldu. Hvernig er hægt að stofna nýbýli án þess að taka landið frá jörðinni? Jörðinni er jafnlítið eftir skilið, hvort sem landið er selt eða tekið undir nýbýli. Hvernig er svo þetta flag, sem talað er um heima við bæinn? Það er brotið land, herfað og undirbúið til ræktunar. Það er dálítið önnur merking í því, sem venjulega er átt við með orðinu „flag“. Það er sagt, að þarna sje 800–2000 hesta slægjuland. Jeg býst við, að það sje nú eitthvað ýkt, en það munu þó vera töluverðar brokslægjur í þessu heiðarlandi. Gerum nú ráð fyrir, að landið yrði selt á 4–6 þúsund krónur og hægt yrði fyrir andvirði þess að rækta 10 hektara land heima við prestssetrið. Af því landi mundu fást um 450 hestar af töðu. Hver mundi nú sá vera, sem ekki vildi skifta á þessum brokslægjum og fá 450 hesta tún fyrir? Hjer kemur líka annað til greina. Hjer kemur fram bein tilraun til að fleyta þeirri stefnu fram, sem alment er talin sjálfsögð og rjett: að nota ræktað land í stað óræktaðs, nærtækt töðuland í staðinn fyrir heiðarslægjur. Nú hefir stjórnin lýst því yfir, að sjer dytti ekki í hug að leyfa svo mikla sölu, að jörðin hefði ekki nægilegt beitiland. Hvað er þá ótrygt í þessu máli? Jeg hefi altaf fylgt þeirri stefnu, að rjett væri yfirleitt að selja einstaklingum opinberar jarðeignir. Það ættu heldur ekki að vera eyðilagðir ræktunarmöguleikar þessa lands, þó að það kæmist í hendur sveitarstjórnarinnar. Jeg skil ekki, að verra þyrfti að vera að eiga við þau stjórnarvöld í því efni heldur en landsstjórnina. Jeg geri hreppsnefnd Mosfellshrepps engar getsakir í þessu máli. Jeg geng út frá, að hún geri það við landið, sem hún álítur hagkvæmast fyrir sveitina. Ef fjenaður sveitarinnar gengur í landinu og gerir prestinum óhagræði, því meiri ástæða er til að selja. Jeg finn ekki neina skynsamlega ástæðu til þess að neita þessari sölu. Eins og jeg hefi tekið fram, álít jeg allar þessar eignir betur komnar í höndum sveitarstjórna og einstaklinga heldur en ríkisins. Það hefir sýnt sig, að á ríkisjörðunum er oftast um mesta vanrækslu að ræða.