03.03.1927
Efri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

4. mál, iðnaðarnám

Jón Baldvinsson:

Þetta frv. er ekki verulega frábrugðið hinum eldri lögum um sama efni í verulegum atriðum. Mjer þykir það galli á frv., að vinnutími nemenda skuli vera heimilaður 60 stundir á viku. Jeg tel of langt gengið að ætla nemendum 10 stunda vinnu á dag, og ætti nefndin að athuga þetta atriði nánar. Iðnnemum, 18 ára og eldri, ætti ekki að ætla lengri vinnutíma en 8 stundir á dag, og yngri nemendum skemri tíma.

Þá þykir mjer ekki vera nógu skýrt ákveðið í frv. um sumarleyfi. Það er að vísu gert ráð fyrir, að um sumarleyfi sje ákveðið í námssamningi, en það er ekki tiltekið neitt ákveðið um leyfið. En slíkt finst mjer óhjákvæmilegt, þar sem lögin eiga að tryggja rjett unglinga, sem venjulega eiga örðugra með að ná rjetti sínum en húsbændurnir, ef á milli ber.

Jeg legg mikið upp úr þessum tveim atriðum og mælist til þess, að nefndin taki þau til athugunar. Annars verð jeg að koma með brtt. við þetta og kannske fleira við 3. umr. í frv., sem jeg bar fram í fyrra um sama efni, var rjettur nemenda yfirleitt betur trygður en með þessu frv. Þetta frv. finst mjer of svipað hinum eldri lögum, þótt út hafi verið tekið ákvæðið um húsagann og annað slíkt. En sjerstaklega finst mjer þó nauðsynlegt að athuga betur þessi tvö atriði, sem jeg hefi nefnt, vinnutímann og sumarleyfið.