17.05.1927
Efri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Einar Jónsson:

Jeg verð að lýsa því yfir, að jeg treysti mjer trauðlega til þess að fylgja þessu máli. Jeg hefi nú hlustað á skýringar hv. þm. Vestm. (JJós) og hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), sem hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og sannast að segja felli jeg mig betur við umsögn hans en hv. þm. Vestm. Jeg vil vekja athygli á því, að það hafa áður verið seldir partar úr kirkjujörðum, og eftir því sem jeg hefi kynt mjer það, þá þótti það ekki hafa gefist vel. Mig minnir, að þetta hafi komið fyrir á tveim jörðum á Austurlandi, Vallanesi og Kolfreyjustað. Einnig var þetta gert á Kornsá í Húnavatnssýslu, og hefi jeg heyrt, að mikil óánægja hafi risið út af því.

Það hefir verið vitnað í það, hve erfitt væri að smala beitilandið. Og í því sambandi get jeg mint á það, að þegar búið var að parta Kornsá, þá var smalamenskan á landinu, sem eftir var óselt, svo dýr, að landið var selt fyrir lítið verð eða sama sem ekkert þeim manni, sem keypt hafði hinn hlutann. — Jeg er mótfallinn því, að verið sje að búta sundur jarðirnar og selja til einstakra manna, þó að það sje látið heita svo, að meiri hl. þeirra sje enn í eign hins opinbera. Annaðhvort á að selja jörðina alla eða ekki. Ef verið er að selja smáspildur af jörðunum, þá er það vanalega sökum eigingirni einstakra manna, er hafa augastað á þessum spildum.

Jeg get ekki látið hjá líða að minnast á það, að hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) vændi meiri hl. þessarar deildar um það, að hann hefði oftast rangt fyrir sjer. Mjer finst hann hafa tekið hjer munninn nokkuð fullan, en annars er hann nú einn af þeim, sem myndar meiri hl. í þessari deild, og hefir hann þá líklega talað þessi orð til. sín. — Það er nú oft erfitt um það að dæma, hverjir hafi á rjettu að standa og hverjir á röngu. Það mun víst venjulega vera á víxl, en í heild sinni býst jeg ekki við, að hægt sje að viðhafa þau sterku orð, er háttv. þm. (GÓ) mælti áðan. Og jeg neita því alveg að því er snertir mig og flokk þann, sem jeg telst til, að þetta sje rjett með farið.