17.05.1927
Efri deild: 76. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vil aðeins benda á það, að því hefir verið lýst yfir í Nd., að ef frv. þetta verður samþ., þá mun stjórnin undanskilja sölunni það land, sem er nægilegt fyrir Mosfell og hjáleigur þess til að reka þann búskap, sem hæfir jörðinni. Jeg skil svo 1. gr. frv., að þar sje aðeins rætt um sölu heiðarlandsins. (EJ: En hví þá ekki að selja alla jörðina?). Þess gerist ekki þörf, enda er ekki siður að nota jarðir niðri í sveitum fyrir afrjettarland. Það eru dæmi til þess, að heiðarlönd hafi verið seld undan prestssetrum, og jeg get ekki sjeð annað en að það geti verið rjett að gera það. Svo gæti farið, að einstakir menn næðu í þetta land á leigu, og væri þá sveit sú, sem hjer á hlut að máli, illa sett að því er afrjettarland snertir, og henni því lítill greiði ger með því að leggjast á móti sölunni. Annars get jeg ekki sjeð, að það sje neinn hagur, hvorki fyrir væntanlegan prest á Mosfelli nje jörðina, að eiga stórt heiðarland langt í burtu, sem notað er sem afrjettur frá sveitinni.

Að því leyti, sem hv. 2. þm. Rang. (EJ) mintist á að heiðarlandið á Kornsá hefði verið undanþegið sölunni, þá get jeg upplýst það, að landið er nú selt öðrum manni en ábúandanum á Kornsá. Ábúandinn á Kornsá vildi ekki kaupa heiðarlandið með aðaljörðinni, af því að honum þótti landið of stórt. Og svipað mun vera ástatt hjer. Ætlunin er líka að undanskilja nægilegt land til beitar og slægna fyrir það bú, sem sæmilegt er að hafa á Mosfelli, og sje jeg því ekki, hvað er á móti því, að hreppurinn eignist þetta heiðarland. Það stendur svo á um þessa jörð, að hluti af henni hefir verið tekinn undir þúfnabanavinslu, og er því gott að geta fengið fje það, sem fæst við söluna, til þess að rækta þetta land. Mjer sýnist það vera góð skifti fyrir ábúandann og hið opinbera að geta selt þetta heiðarland, en fengið í staðinn ræktað land til afnota heima við túnið.

Mjer skildist hv. 2. þm. Rang. (EJ) nefna Vallanes sem óheppilegt dæmi í þessu efni. En þar er alt öðru máli að gegna, því að þar var seldur hluti af heimalandinu, en hjer er ekki um annað að ræða en heiðarland, sem liggur fjarri jörðinni.