18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Björn Kristjánsson:

Það er öðru nær en að jeg vilji hleypa kappi í þetta mál, því að þó að það verði ekki samþykt nú, þá verður það gert á næstu þingum.

Mál þetta virðist ekki vera mjög flókið. Hjer eiga í hlut tveir aðiljar, hreppsnefndin og settur og væntanlegur prestur á Mosfelli. Hreppsnefndin þarfnast heiðarlandsins, sem er langt frá heimajörðinni Mosfelli og sem Mosfell hefir lítil eða engin not af. En presturinn vill svo gott sem flytja heiðarlandið heim að túninu á Mosfelli, svo að jörðin geti haft not af því, sem gerist á þann hátt, að Mosfell nýtur söluverðsins og getur með því ræktað og stækkað jörðina heima fyrir, sem er augsýnilegur hagur fyrir hann, og þá líka fyrir landeiganda.

Búskaparlagið í Mosfellssveit er nú orðið þannig, að menn leggja aðaláhersluna á kúabúin; gerir það lega sveitarinnar. Þó að nú land þetta verði selt frá Mosfelli, þá nýtur sú jörð heiðarlandsins eftir sem áður sem upprekstrarlands eins og aðrar jarðir í hreppnum. Að bera þessa sölu saman við söluna á Vallanesi nær engri átt. Frá þeirri jörð var seldur aðalkjarni jarðarinnar, eitt hið besta slægjulandið, sem kunnugt er. Óttinn fyrir því, að hreppurinn kunni að hafa einhver not af landinu til útgræðslu, er á litlum rökum bygður, í fyrsta lagi sökum þess, að hreppinn vantar upprekstrarland, en nýbýli myndu stórskaða það. Í öðru lagi sökum þess, að landið liggur svo hátt, að fáir myndu sækjast eftir því til nýbýlaræktar. Og þó svo væri, að eitthvað yrði þar ræktað, þá yrði það gert fyrir atbeina hreppsnefndarinnar, og yrði ræktun á því svæði áreiðanlega ekki ódýr. Í þriðja lagi væri mjög ólíklegt, að presturinn færi að koma ræktun þar á, eða jarðeigandinn. Landið myndi því halda áfram að verða arðlaust fyrir Mosfell eins og áður. Svona liggur málið fyrir mjer. Mjer finst það ofurljóst, og jeg trúi ekki öðru en hv. þdm. greiði atkv. með því, þegar þeir hafa áttað sig á því til fullnustu.