18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

112. mál, Mosfellsheiðarland

Guðmundur Ólafsson:

Jeg stóð í raun og veru fyr upp en jeg ætlaði. Jeg var nefnilega að búast við því, að hv. frsm. meiri hl. (JJós) myndi taka til máls, en úr því að bið verður á því, sá jeg mjer ekki annað fært en að segja nokkur orð.

Háttv. 1. þm. G.-K. (BK) byrjaði ræðu sína vel. Honum fanst það ekki gera svo mjög mikið til, þó að þetta mál biði næsta þings. Hann talaði um að flytja landið heim að Mosfelli. Sömuleiðis sagði hann, að sveitin væri betur fallin til kúaræktar en sauðfjárræktar; þó vantaði hana nauðsynlegt afrjettarland. Jeg veit satt að segja ekki, hvernig á að skilja þetta. Maður skyldi helst ætla, að það væri afrjett fyrir kýrnar, sem þá vantaði þar í Mosfellssveitinni. (BK: Þetta er hreinn útúrsnúningur). Þetta er enginn útúrsnúningur; hv. þm. sagði þetta, og aðrar ályktanir er ekki hægt að draga af orðum hans. Þá talaði hann um, að landið lægi svo hátt, að það yrði ekki bygt, en það verð jeg að draga í efa; að minsta kosti veit jeg til þess, að víða er bygt þar, sem hærra liggur en þetta. Annars er það undarlegt, að hreppsnefndin skuli nú fyrst vakna til meðvitundar um, að nauðsynlegt sje fyrir hreppinn að fá þetta land fyrir afrjettarland. Get jeg svo ekki verið að svara þessu frekar.