03.03.1927
Efri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

4. mál, iðnaðarnám

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það gleður mig, að hv. 5. landsk. (JBald) hefir ekki haft fleira við frv. að athuga en hann hefir látið í ljós, og jeg tek það sem viðurkenningu þess, að honum hafi þótt stjórninni betur takast en sjálfum sjer í fyrra.

Hv. þm. tók fram, að tryggja þyrfti rjett nemenda. Það er rjett. En það þarf líka að tryggja lærimeistara, og það er tilgangur frumvarpsins að tryggja báða aðilja sem best. Þessum háttv. þm. hættir æðioft til að líta aðeins á aðra hlið málsins, en vilji maður vera rjettdæmur, verður að líta á báðar hliðar jafnt.

Hv. þm. sagði, að vinnutíminn væri ákveðinn of langur. Hámarksvinnutími er ákveðinn 60 stundir á viku. En þar með eru taldar 6 kenslustundir í teikningu og bóklegum fræðum, svo að daglegur vinnutími er ekki nema 9 stundir. Jeg held, af því að hjer er um að ræða hámarksvinnutíma fyrir allar iðngreinir, að ekki sje rjett að ákveða færri vinnustundir. Þá vildi hv. þm. fá skýrt ákvæði um sumarleyfi. í 9. gr. frv. er gengið út frá sumarleyfi sem sjálfsögðu, en ekki sett nánari ákvæði um, hvernig því skuli háttað. Jeg held, að þetta sje alveg nægilegt, en hins vegar erfitt að setja um þetta fyrirmæli í lögum, sem átt geti við allar iðngreinir. Jeg get t. d. ímyndað mjer, að það væri óhentugt fyrir múrara að verða að gefa sumarleyfi um hásumarið. Yfirleitt tel jeg hentugra að hafa ákvæðin ekki þrengri en þetta.