30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Jakob Möller:

* Þetta frv. hefir stjórnin borið fram og hún vísað að nokkru leyti af sjer á fjhn. til vegs og vanda, því að stjórnin hefir lýst yfir því, að hún hafi ekki rannsakað nákvæmlega, hvernig fyrirtæki þau, sem hjer á að leggja á, myndu geta borið slíkan toll sem þennan, er frv. gerir ráð fyrir. Nefndin gerði því ráðstafanir til að fá upplýsingar um málið og fjekk á fund sinn forstöðumenn þessara fyrirtækja, sem leggja á toll á, og sem vænta mátti, báru þeir sig illa upp undan þessu frv. og kváðust ekki geta tekið á sig þau útgjöld, sem þessu yrðu samfara. Þessi fyrirtæki eru flest ung og á byrjunarstigi. Það er líka vitanlegt, að þau eiga erfitt aðstöðu, hafa lítinn markað og þurfa að keppa við erlenda framleiðendur, sem hafa betri markað og standa að öllu leyti betur að vígi. Hinsvegar er á það að líta, að þótt þessi fyrirtæki njóti tollverndar, sem ekki verður neitað að þau geri, þá verkar sú vernd öfugt við það, sem mest er fundið að tollverndinni, svo að hún verður til þess að halda niðri verðinu á þessum vörum. Meðan þessi fyrirtæki eru að komast á laggirnar, verða þau að selja vörur sínar lægra verði en hinir útlendu keppinautar geta staðið sig við, enda er sannanlegt, að ýmsar þessar innlendu vörur eru ódýrari en þær útlendu, svo að hjer kemur ekki fram höfuðgalli allrar tollverndar, sem sje sá, að gera vörurnar dýrari. Getur því meiri hl. nefndarinnar ekki sjeð þörf á því, að slík framleiðsla sje tolluð á þann hátt, sem frv. fer fram á. En það er önnur hlið á þessu máli, sem snýr að ríkissjóði, og hún er sú, að um leið og hinar erlendu vörur eru hátt tollaðar, ryðja hinar innlendu vörur sjer til rúms, og verður þá ríkissjóður fyrir tekjurýrnun. Því er eðlilegt, að hæstv. stjórn beri þetta frv. fram. Hinsvegar er sannleikurinn sá um sumar þessar vörutegundir, að framleiðslan er ekki svo mikil ennþá af þeim, að þess geti gætt á tolltekjum ríkissjóðs, svo að þær minki. Það er þá helst ölið, sem hefir aukist framleiðsla á síðari árin, en það munar ríkissjóð engu verulegu. Nefndin getur ekki sjeð nokkra hættu á því fyrir ríkissjóð, þótt það drægist um 2 ár eða svo að setja lög um þetta, og ýmsum í nefndinni fanst rjett að bíða með þessi lög og gefa fyrirtækjunum tækifæri til þess að komast á tryggari fjárhagsgrundvöll en þau nú eru á. En það varð að samkomulagi að leggja til, að málið væri afgreitt á þann hátt, að tollurinn væri settur lægri en í stjfrv. til að byrja með, en væri látinn hækka smátt og smátt, en ekki látinn skella á fyrirtækjunum lítt viðbúnum.

Jeg var ekki kosinn frsm. og er því lítt viðbúinn að hafa framsögu í málinu, en skal þó geta þess um eitt þessara fyrirtækja og hið öflugasta þeirra, að ef þessi tollur hefði verið kominn á fyrir einu ári, þá hefði hann numið öllum tekjuafgangi fyrirtækisins árið á undan, þetta höfum við sannfærst um af upplýsingum forstöðumannsins um framleiðslu fyrirtækisins. Árið 1926 hefir ágóðinn orðið eitthvað meiri, svo að einhver afgangur hefði orðið, þótt fyrirtækið hefði borgað þennan toll, En af þessu geta hv. þm. sjeð, hversu hart þessi tollur hefði komið niður á þessu fyrirtæki, enda þótt það sje mjög efnilegt og því gangi vel. Mörg þessara fyrirtækja eru í byrjun og ölgerðin er svo að segja nýbyrjuð í stórum stíl; hefir verið í smáum stíl alt þangað til fyrir 2 árum. Hún hefir orðið að afla sjer dýrra tækja, lagt í byggingarkostnað og þurft að borga mikla vexti af lánum. Svo er annarsvegar mikil samkepni, en hinsvegar deyfð í viðskiftalífinu. Á þetta áleit nefndin að bæri að líta, og leggur því til, að hafður sje lágur tollur á þessum fyrirtækjum, er hækki smám saman. Jeg vona því, að hæstv. stjórn geti látið sjer þessar till. nefndarinnar vel líka.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.