30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á hjerna brtt. á þskj. 263, við brtt. hv. fjhn. Jeg skal þegar taka það fram, að mjer virðast till. hv. nefndar ráða mikla bót á frv. hæstv. stjórnar. Hygg jeg, að frv. myndi, ef það yrði að lögum eins og það er frá hæstv. stjórn komið, verða til að íþyngja alltilfinnanlega þeim fyrirtækjum, sem það snertir. Flest þau fyrirtæki, er frv. snertir, eru ný og því lítt fær um að þola auknar álögur, ef þau eiga að geta staðist samkepnina við samskonar erlend fyrirtæki, sem geta framleitt vörur sínar ódýrt og í stórum stíl, og er því auðvelt að keppa við hin innlendu fyrirtæki. Jeg lít svo á, að ekki sje heppilegt yfirleitt að setja lög um þetta efni nú, en sje það gert, þá álít jeg það hyggilegt, að þau verði væg, og í trausti þess, að till. mín verði samþykt, ber jeg hana fram og tel þá betur sjeð fyrir hag þessara fyrirtækja.

Í nágrannalöndum vorum mun það vera svo, að tollgjald af þessum vörutegundum mun ekki nema 14 hluta af aðflutningsgjaldi vörunnar, en eftir till. hv. nefndar á gjaldið að 6 árum liðnum að vera 1/3 hluti aðflutningsgjaldsins. Nú vita allir, að ölgerðin er ungt fyrirtæki, sem ennþá hefir ekki tekist að safna í varasjóð eða tryggingarsjóð fyrir starfsemi sinni, en það sem hún hefir fært út kvíarnar, þá hefir það verið gert á dýrustu tímum. Hún á því erfitt með að keppa við erlend fyrirtæki í þessari framleiðslu, því að þau hafa mörgum sinnum meira fje yfir að ráða, og þó að þau þyrftu að gjalda mörgum sinnum hærra gjald en þessi fyrirtæki hjer heima, þá mundi þeim reynast auðvelt að keppa við þau. Það er bein skylda löggjafans að hlynna sem mest að hverskonar innlendri starfsemi í landinu sjálfu, og væri því illa farið, ef þessum fyrirtækjum væri gert erfiðara fyrir en alveg er nauðsynlegt. Vjer þurfum að greiða nógu mikið til útlendinga fyrir starfsemi, er fram fer erlendis, en ætti að fara fram hjer á landi, t. d. fyrir fatnað 0. fl. Vænti jeg, að hv. deild geri þessar lagfæringar á frv. hæstv. stjórnar og brtt. hv. fjhn., og vænti jeg því, að brtt. mín verði samþykt.