26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg veit ekki nema það væri rjett að taka málið af dagskrá sökum fámennis í deildinni.

Jeg skal segja það þegar í stað, að jeg hefi enga trú á því, þótt hv. nefnd hafi það, að kaffibætisgerðin, — sem nýlega var seld með töluverðum ágóða og nýtur 75 au. verndartolls á hverju kg., — sje rekin með tapi.

Hv. þm. (JakM) ljest ekki skilja, að aukin neysla gæti rjettlætt iðnað eins og ölgerðina. Jeg get þá frætt hann á því, að hagfræðingar álíta, að tilgangurinn með öllu okkar bjástri sje að geta aukið sem mest neysluna, fullnægt sem flestum líkamlegum þörfum. Öl er hollur og góður drykkur, og það verður að teljast framför í þjóðfjelaginu, að sem flestir verði svo efnum búnir, að þeir hafi efni á að veita sjer það, án þess að það skerði fullnægingu nokkurra nauðsynlegri þarfa.

Það er sú hugsun, sem vakir fyrir öllum fylgismönnum tollverndarstefnunnar, (en í þeirra hóp virðist mjer háttv. þm. (JakM) vera), að borgarar þjóðfjelagsins lifi sem mest hver á öðrum. Jeg held nú, að sú stefna sje ekki holl fyrir okkur, en um hana er mikill ágreiningur. —Jeg viðurkenni auðvitað, að það sje gott, að iðngreinir kaupstaðanna blómgist og dragi að sjer hæfilega margt fólk. En þegar verið er að kvarta undan fólksleysinu og fjárskortinum í sveitum landsins, þá skil jeg ekki í hv. 2. þm. Árn. (JörB) og öðrum, sem vilja sjerstaklega bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti, að vilja nú skattleggja alla landsmenn handa fyrirtækjum, sem draga frá sveitunum vinnukraftinn og fjármagnið. Kaffibætisgerðin er einmitt ágætt dæmi þess, hve óholl öfgastefna þetta er. Fyrst er lagður hár tollur á vörutegund, til þess að afla ríkissjóði tekna. Síðan á alveg að snúa við blaðinu og afsala tekjum ríkissjóðs til handa einkafyrirtæki. Það er e. t. v. hægt að skýra afstöðu hv. 1. þm. Reykv. (JakM) til þessa máls; hann segir bara: „Mínir kjósendur fyrst“, en jeg skil ekki þær till., sem ganga jafnvel enn lengra frá sveitaþingmönnum eins og hv. 2. þm. Árn. (JörB). Sú afstaða hlýtur að vera á einhverjum misskilningi bygð.

Jeg álít það vorkunnarmál, og jafnvel rjett, að taka nokkurt tillit til fyrirtækja, sem stofnuð eru undir annari löggjöf, þótt úrelt hafi verið. Og mjer þykir rjett að firra þau fyrirtæki tapi í lengstu lög. En það nær ekki nokkurri átt að láta tolllögin vera þannig, að í skjóli þeirra rísi upp atvinnuvegir, sem undir heilbrigðum skilyrðum geta alls ekki þrifist. — Framleiðsla óþarfavarnings held jeg líka að ætti að vera síðasta iðngreinin til að fá tollvernd. Mjer finst það því stinga nokkuð í stúf, að eftir brtt. hv. nefndar eiga öll hráefni til óþarfavinslunnar að vera verðtollsfrjáls, en aðeins er heimild til að undanþiggja hráefni til þarfari iðngreina tollinum. Þetta virðist mjer vera að fara aftan að siðunum.