26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla að segja örfá orð, enda þótt hætt sje við, að hæstv. forsrh. (JÞ) verði eins hissa á mínum orðum og orðum hv. 2. þm. Árn. (JörB). Jeg hafði öðrum hnöppum að hneppa við 1. umr. þessa frv. Annars hefði jeg þá þegar sagt, að jeg væri því algerlega andvígur. Jeg er þeirrar skoðunar, að ríkið eigi að styðja innlenda framleiðslu, bæði í sveitum og kauptúnum, og hallast þannig að verndartollastefnunni, sem hæstv. ráðh. ámælti svo mjög. Jeg hefi borið fram frv. um að leggja toll á útlent hey. Einnig hefi jeg reynt að styðja eftir mætti mjólkurniðursuðuna í Borgarfirði. Jeg vil yfirleitt koma á fót sem flestum iðngreinum í landinu. — Nú virðist vera alveg sjerstök ástæða til þessa, því að atvinnuleysi er svo mikið í bæjunum, að á engan hátt má íþyngja þeim vísi til iðnaðar, sem hjer er risinn upp. — Þótt tollverndarstefnan sje nauðsynleg í öllum löndum, er þó alveg sjerstök ástæða til að aðhyllast hana hjer. Báðum aðalatvinnuvegunum er svo háttað, að þeir þurfa ekki mikils vinnuafls nema á sjerstökum árstímum. Þess vegna væri nauðsynlegt að koma upp innlendum iðnaði, sem gæti tekið fólkið í sína þjónustu aðra árshluta.

Það er mál, sem allir þekkja, að þegar byrjað er að framleiða einhverja vöru, sem áður hefir verið flutt inn, þá er það segin saga, að þeir útlendingar, sem áður hafa selt vöruna, fara með sína framleiðslu niður fyrir sannvirði, til þess að bola hinni innlendu burtu. Jeg álít, að íslenska ríkið eigi að mæta þessari tilraun útlendinganna með því að veita hinum innlenda iðnaði vernd sína. — Frv. það, sem hjer er á ferð, fer alt of hratt úr hlaði í því að tolla hina innlendu framleiðslu. Á sínum tíma er sjálfsagt að fá um þetta skýr lög, en það er of snemt enn. Jeg álít, að brtt. hv. nefndar sjeu til mikilla bóta, og mun því greiða þeim atkv. En hvort sem þær ná fram að ganga eða ekki, mun jeg greiða atkv. á móti frv.