26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Jakob Möller* Hæstv. forsrh. (Jp) sagðist illa trúa því, að kaffibætisvinslan væri rekin með tapi. Hann getur þó væntanlega skilið, að það er ekki nóg að hafa háan verndartoll, ef framleiðslan er ekki svo mikil, að fyrirtækið beri sig. Því að það þarf að borga fleira en vinnulaun við svona iðnrekstur. Vextir af stofnkostnaði eru mjög miklir, þar sem dýrar vjelar þarf við iðnaðinn. Þess vegna er það mjög undir framleiðslumagninu komið, hversu hátt verð þarf að vera á vörunni til þess að iðnaðurinn borgi sig. Mjer skildist, að hæstv. ráðh. (JÞ) hefði ekki annað fram að færa fyrir mótmælum sínum en þá tollvernd, sem brtt. fjhn. sköpuðu, enda sagði hann við 1. umr., að hann hefði ekki aflað sjer upplýsinga um það, hve háan toll hver iðngrein gæti borgað. Jeg hefi nú ekki umboð frá fjhn. til þess að áfellast hæstv. ráðh. fyrir þetta, en þar fyrir hefði mjer þótt viðfeldnara, að hann hefði undirbúið málið ögn betur.

Hæstv. ráðh. (JÞ) sagði, að kaffibætisgerðin hafi nýlega verið seld með mjög góðum ábata. Jeg veit nú ekki, hvernig sú sala var, en hitt veit jeg, að kaffibætisgerðin var seld í sambandi við annað fyrirtæki, sem reynst hefir miklu gróðavænlegra og sagt er að hafi borið hvottveggja uppi.

Hæstv. ráðh. var eitthvað að blanda mínum kjósendum inn í þessar umr. Jeg ætla nú ekkert að fara að tala um hans kjósendur, en hitt vil jeg benda á, að hann var að brýna hv. 2. þm. Árn. (JörB) á því, að þessi fyrirtæki í kaupstöðunum drægju vinnukraft úr sveitunum. Þessi orð geta ekki sýnt annað en það, að það er ekki tilgangur hæstv. ráðh. að ná í tollinn, heldur að skera niður þessar iðngreinir. Því aðeins fá sveitirnar vinnukraftinn aftur, að ráðið sje niðurlögum keppinautanna.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri í rauninni tilgangurinn með öllu okkar bjástri að geta aukið neysluna. Jeg er hræddur um, að þetta sje ekki í sem bestu samræmi við margt það, sem hann hefir sagt áður. Það hefir verið ein af hans höfuðkenningum, að endilega þyrfti að takmarka eyðsluna. En hvað er neyslan annað en eyðsla? Jeg hefi nú aldrei fallist á, að þetta væri annað eins keppikefli og hæstv. ráðh. hefir viljað vera láta, en því síður get jeg fallist á þessa nýju eyðslukenningu. Enda býst jeg varla við, að þetta sje sannfæring hæstv. ráðh., heldur aðeins á augnabliks rök, sem hann hefir gripið til í þessu máli.

Hæstv. ráðh. vildi væna fjhn. þess, að hún væri fylgjandi verndartollum. Jeg gat þess áður, að hjer væri nokkuð sjerstöku máli að gegna, af því áð tollverndinni er ætlað að verka meðan innlendu vörurnar eru að afla sjer markaðs, Uns þær eru komnar vel af stað. En það er ljóst, að fyrst í stað verður að selja hina innlendu framleiðslu ódýrar en hina útlendu, meðan menn eru að kynnast henni og hún er að útbreiðast. — Það eitt er höfuðókostur verndartollastefnunnar, að hún eykur dýrtíð í landinu, en hitt ekki, að hún flytur inn framleiðsluna. En hjer er ekki því til að dreifa, að verðið hœkki, heldur þvert á móti. Vörurnar verða ódýrari í samkepninni um markaðinn. Það er sjerstaklega ástatt um kaffibætinn, því að hann er fluttur inn frá einum einasta framleiðanda. Menn geta sagt sjer það sjálfir, hvaða áhrif þetta hafi, hvort það verði til þess að hækka verðið eða lækka. Það hlýtur að leiða til einokunar í stað samkeppni.

Við fjhn.-menn höfum ekki fylgt verndartollastefnu þar sem öðruvísi stóð á, þar sem afleiðingin hefði óhjákvæmilega orðið hækkað vöruverð. Jeg skal aðeins minna á niðursuðu mjólkur, þar Sem við lögðum til að veita styrk til þess að halda því fyrirtæki uppi eða gera því kleift áð keppa við útlenda framleiðslu, í stað þess að leggja toll á útlenda mjólk. Það hefði orðið til þess að hækka verð þeirrar vöru í landinu.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það ætti að taka fult tillit til þeirra fyrirtækja, sem stofnuð hafa verið að undanförnu undir gildandi lögum. Það er ekkert annað, sem nefndin fer fram á. Það var enginn framleiðslutollur á þessum vörutegundum, þegar þessi fyrirtæki voru stofnuð með allmiklum kostnaði, sem óvíst er, að þoli svo háa tolla sem hjer er um að ræða. Það teljum við betur farið heldur en geta þessi fyrirtæki að engu að raunalausu. Það er að eyða, að skera niður fyrirtæki, sem búið ef að stofna með ærnum kostnaði, með því að gera því ókleift að starfa. Ef kaffibætisgerðin getur ekki staðist í framtíðinni, þá er ekkert við því að segja í sjálfu sjer. En nefndinni finst sjálfsagt að styðja þessa verksmiðju, úr því áð hún er tekin til starfa og vissulega getur gert gagn, ef hún getur staðist samkepnina með því að gera vöruna ódýrari innanlands og halda vöruverðinu sæmilegu.

Hæstv. ráðh. sagði, að það ætti ekki að veita tilbúningi á óþarfa neina vertíð. Þetta kemur í bága við það, sem hann áður sagði, að æskilegt væri að auká neysluna í landinu. Ef það er æskilegt að auka heysluna með því að framleiðslan sje innlend, þá er það æskilegast með því að styðja að því, að sú framleiðsla komist á og haldist uppi; enda játaði hann þetta að vissu leyti í sambandi við ölgerð, og er því í mótsetningu við sjálfan sig í þessu efni. En hvort sem vörurnar eru þarfar eða óþarfar, þá held jeg því fram — og nefndin er sammála um það —, að ef framleiðslan á annað borð getur borgað sig í landinu, þá sje æskilegra, að hún sje innlend heldur en varan sje keypt frá útlöndum. Það er altaf gróði, hvort sem varan er nauðsynleg eða ónauðsynleg, ef hún á annað borð er notuð. Hitt er ávalt nokkurt tap, að borga verð hennar með framleiðslukostnaði út úr landinu, nema því aðeins, að framleiðslukostnaður verði dýrari innanlands; þá er gróðinn vitanlega vafasamur.

Að lokum vakti hæstv. forsrh. athygli á því, að þessar óþörfu vörutegundir ættu eftir till. nefndarinnar að njóta hlunninda fram yfir aðrar iðnaðarvörur, sem framleiddar eru í landinu, með því að vera undanþegnar verðtolli á efnivöru með beinu lagaákvæði, þar sem aðeins væri heimild viðvíkjandi öðrum. Jeg vil aðeins vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að verðtollslögin ætluðust til, að efnivörur væru yfirleitt undanþegnar verðtolli. Það var aðeins í þeim tilfellum, að stjórnin treysti sjer ekki til að skera úr, hvort um efni til íslensks iðnaðar væri að ræða, að hún notaði sjer heimildina til að taka verðtoll. Svo að eftir sem áður njóta þessar vörutegundir ekki hlunninda, ef stjórnin framfylgir verðstollslögunum eins og til er ætlast.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.