08.04.1927
Efri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þetta er stjfrv., sem var lagt fyrir hv. Nd. Jeg tel, að í aths. frv. sje gerð nægileg grein fyrir ástæðunum til þess, að það er fram komið. Í Nd. hafði fjhn. það til meðferðar, og hún fjelst að vísu á, að rjett vœri að setja lög um þetta efni af þeim ástæðum, sem stjórnin hafði fært fram, en nefndin gerði samt allverulega breytingu á uppástungum stjfrv. um gjaldaákvæði þeirra tollvörutegunda, sem ekki er greitt gjald af nú þegar samkvæmt gildandi lögum. Jeg get ekki neitað því, að mjer þótti hv. Nd. fara fulllangt í að færa niður gjöldin, enda þótt jeg væri við því búinn, að það mundi þurfa að gera nokkra tilslökun, einkum með tilliti til þess atvinnurekstrar, sem upp er risinn í skjóli tollverndunarinnar.

Hv. Nd, hefir í raun og veru viljað gera þetta, en hefir þó orðað till. sína um niðurfærslu þannig, að sú niðurfærsla nær jafnt til þeirra fyrirtækja, sem kynnu að verða stofnuð, og þeirra, sem nú eru til.

Það er ekki full ástæða til að veita alment svona mikla tollvernd iðnaði á þessu sviði, þó að jeg hljóti að viðurkenna, að þau fyrirtæki, sem þegar eru upp risin, hafi sjerstöðu í þessu efni.

Jeg vil svo leyfa mjer að leggja til, að þessu máli verði vísað til fjhn.umr. lokinni.