03.03.1927
Efri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

4. mál, iðnaðarnám

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Engum, sem ber þetta frv. saman við lögin frá 1893, getur blandast hugur um, að með þessu frv. er rjettur iðnnema betur trygður á ýmsum sviðum en í hinum eldri lögum, og er þetta því allmikil rjettarbót fyrir nemendur.

Um þessi tvö atriði, sem háttv. 5. landsk. (JBald) mintist á, er það að segja, að þessi 60 stunda vinnutími á viku er aðeins hámarksákvæði, eins og hæstv. atvrh. (MG) tók fram, og í þeim tíma er innifalin sú kensla, sem nemendum ber að hafa og eftir þessu frv. fer algerlega fram á kostnað lærimeistara. Jeg sje ekki mikla ástæðu til að breyta þessu ákvæði, en auðvitað má athuga þetta nánar fyrir 3. umr.

Um sumarleyfið er það að segja, að frv. gerir svo greinilega ráð fyrir því, að um það getur ekki leikið á tveim tungum. Jeg býst við, að þegar gefið er sumarleyfi á annað borð, detti engum í hug að hafa það skemra en 1 viku, svo að um það ætti varla að þurfa sjerstakt ákvæði í lögunum. Mjer er kunnugt um, að hjá mörgum er það lengra. Að ákveða árstímann finst mjer heldur ekki nauðsynlegt. Orðið sjálft bendir á, hvenær þetta leyfi skuli gefið að jafnaði. Yfirleitt finst mjer það nægileg trygging, að lögin geri ráð fyrir, að ákvæði um sumarleyfi sjeu sett í námssamningana. En þetta má gjarnan athuga fyrir 3. umr.