13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Magnús Kristjánsson:

Jeg skal fyrst geta þess, að jeg álít það sje í raun og veru ill nauðsyn að þurfa að íþyngja innlendum iðnaðarfyrirtækjum, sem eru nýlega stofnuð. En samt sem áður er það ýmislegt, sem hægt er að færa fram fyrir þeirri skoðun, að þessi fyrirtæki njóti ekki eins mikillar verndar eins og þau hafa hingað til notið.

En það er annað, sem jeg vildi sjerstaklega minnast á; jeg er — mjer liggur við að segja — undrandi yfir þeirri niðurstöðu, sem nefndin hefir komist að. Það er auðvitað ekki beint nefndarinnar verk, þessi stigmunur á hinum ýmsu vörutegundum, sem hjer um ræðir; en mjer skilst, að ef hlutföllin hafa verið á einhverju viti bygð eins og þau voru áður, þá sje þessi munur, sem nú er gerður á hinum ýmsu vörutegundum, alveg út í loftið. En það, sem mjer í raun og veru þykir einna athugaverðast í till. nefndarinnar, er 4. liður brtt. Jeg hygg hv. nefnd hafi ekki gert sjer fullkomlega ljósar afleiðingamar, ef þessi brtt. yrði samþ. Það kann að hafa við nokkuð að styðjast, að vel mætti ívilna þeim fyrirtækjum, sem þegar eru farin að starfa eitthvað; en jeg álít, að það sje þó því aðeins, að öðrum sje ekki sýnt megnasta ranglæti. Jeg álít, að afleiðingin af samþykt þessarar till. hljóti að verða sú, að t. d. fyrirtæki, sem stofnuð hafa verið nú í ársbyrjun — af kannske veikum mætti, en góðum vilja — og kynnu að geta átt eins mikinn tilverurjett eins og þau, sem fyrir eru, þau hljóti að verða dauðadæmd með slíku fyrirkomulagi sem þessu.

Hins vegar hefði það verið í raun og veru alt annað mál, þótt þessi ívilnun hefði átt sjer stað þannig, að öll þau fyrirtæki, sem stofnuð kunna að verða eftir að lögin hafa gengið í gildi, hefðu orðið fyrir barðinu á þessum lögum. En eins og brtt. hljóðar, álít jeg, að þetta geti ekki staðist; og jeg ætla að bera það traust til hv. nefndar, að hún taki aftur þessa till. sína, a. m. k. til 3. umræðu, til þess að hún verði nákvæmar athuguð. Jeg tel ekki, að mjer þýði neitt að fara að bera fram brtt.; því að jeg býst við, að það fari hjer sem fyr, að meiri hluti þessarar hv. deildar viti fullkomlega, hvað hann vill, og fyrir örlögum brtt. verði sjeð, ef fram kæmi. Þess vegna vil jeg fara þá leið að beina þeirri ósk til háttv. nefndar, að hún sjái sjer fært að fresta atkvgr. um þennan lið brtt.

Til skýringar vil jeg taka ofurlítið dæmi. Við skulum segja, að hjer væri iðnaðarfyrirtæki, svo sem kaffibætisgerð, sem hefði starfað hjer undanfarið og framleitt eitthvað 40 tonn, sem ekki mun vera neitt fráleitt að áætla; þá skilst mjer, að tap ríkissjóðsins á þessari ívilnun mundi vera sem næst 10 þús. kr. á hverju ári, sem þetta gilti. En aftur á móti mættu þau fyrirtæki, sem byrjað hafa starfsemi sína 1. jan. þessa árs eða seinna, mega teljast alveg úr sögunni, gætu ekki haldið áfram sinni starfsemi svo að segja degi lengur.

Jeg þykist ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta. Jeg hefi hjer tekið aðeins eitt dæmi, og mjer þætti ekki ólíklegt, að við nánari athugun muni menn sjá, að það getur ekki verið nokkur ástæða að veita slíka gífurlega ívilnun þessum fyrirtækjum, ef það verður til þess að kippa fótunum undan öðrum, sem ættu alveg samskonar rjett á sjer.

Jeg ætla svo einungis að vænta þess, að hv. nefnd vilji líta með velvilja á þessi tilmæli mín, því að jeg fæ ekki annað skilið en að hún komist að þeirri niðurstöðu, að þetta þurfi nokkurrar breytingar við.