13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil leyfa mjer að fara fram á samkomulag milli hv. 4. landsk. (MK) og hv. nefndar um það, að þessar 4 brtt. hv. meiri hl. fjhn. komi nú til atkvæða, vegna þess að því, sem vakað hefir fyrir hv. 4. landsk., um ívilnun til fyrirtækja, sem stofnsett eru á tímabilinu frá 1. jan. 1927 og þangað til þessi lög öðlast gildi, má að minni hyggju ná með því að orða það sem viðauka, en jeg tel hins vegar ekki hægt að fella það inn í ákvæði nefndarinnar, því að fyrir þau fyrirtæki er ekki hægt að miða við framleiðslu ársins 1926. Þetta frv. ákveður svo, að lögin öðlist gildi 1. júlí 1927, og þá er um það að ræða, hvort hægt er að bæta við væntanlega 3. gr. ákvæði um ívilnun, sem miðuð sje við ástæður fyrirtækja, sem stofnsett eru frá áramótum og til þess tíma. Jeg fyrir mitt leyti er fús til athugunar á því, en finna verður annan mælikvarða en þann, sem till. meiri hl. fjhn. byggir á, nefnilega framleiðslu ársins 1926.

Jeg verð að benda háttv. 6. landsk. (JKr) á það, ef hann vill vera á móti frv. af því að iðnaður eins og sá, er um ræðir í frv., eigi lítinn eða engan tilverurjett í landinu, þá er það svo um þetta frv. að því er snertir gjald fyrir gerð tóbaksvarnings, að þar er haldið ákvæðum núgildandi löggjafar um það efni óbreyttum, og sama er að segja um gjald af brjóstsykurs- og konfektgerð. En um hitt, óáfeng vín o. s. frv., er hjer í fyrsta sinn farið fram á, að þeir, sem slíkt vilja búa til, skuli kaupa leyfisbrjef í því skyni og greiða gjald í ríkissjóð, sem miðast við aðflutningsgjald á þeirri tollvörutegund, sem þeir framleiða. Verði þessi tilraun feld, búa þessi fyrirtæki við það atvinnufrelsi áfram, sem nú er. Og það er vitanlegt, að verksmiðjum, sem fást við ölgerð og kaffibætisframleiðslu, muni skjóta upp eins og gorkúlum, svo fremi þessari löggjöf verði slegið á frest, Jeg vil því fastlega mælast til þess við hv. 6. landsk., þótt honum þyki frv. fara of skamt og leggja of litlar hömlur á tilbúning þessa óþarfa, þá láti hann það ekki verða til þess að svifta frv. atkv. sínu. Það er heldur ekki hægt, eins og þingið er nú skipað, að komast lengra í því að leggja gjöld á þessi fyrirtæki heldur en gert er með brtt. hv. meiri hl. fjhn. Jeg vil og minna á það, að þessi sömu fyrirtæki greiða annað gjald í ríkissjóð, sem vel má leggja í vogarskálina á móti. Öll þurfa þau að flytja inn efnivörur til iðnaðar síns og greiða af þeim vörutoll. Og eru það ekki litlar upphæðir. Auk þess borga þau sína beinu skatta til ríkis og bæjar. Það hefir verið lagt vandlega niður í hv. fjhn. Nd. og af mjer með viðtali og athugun og hliðsjón af því, sem þessi fyrirtæki greiða nú í ríkissjóð. Og eftir atvikum er ekki ástæða til að fara fram á hærra gjald en háttv. meiri hl. leggur til, að samþykt verði.

Mjer finst óheppilegt, ef þessi löggjöf verður ekki útkljáð nú þegar, því að það mundi frekar verða til þess að auka óheilbrigðan atvinnurekstur á þessu sviði, sem ekki getur þrifist nema með því að njóta tollverndar.