13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi litlu við að bæta, en vil aðeins ítreka það, að mjer þætti miklu máli skifta, ef háttv. nefnd vildi taka til greina bendingar mínar og koma fram með till. til breytinga samkvæmt þeim. Þó að jeg færi að bera fram brtt., þá hefi jeg litla von um, að hún næði fram að ganga. En hinsvegar tel jeg víst, að hún væri líkleg til framgangs, ef hv. nefnd vildi taka hana á sína arma. Jeg ætla þá í sem allra fæstum orðum að gera grein fyrir því, hvernig jeg álít, að lagfæringar geti komist að. Jeg álít, að þetta mætti laga með því að bæta við 4. lið á eftir orðunum „að gjaldið ... færist niður í 1/6 aðflutningsgjalds“: að sömu hlunninda njóti atvinnurekendur, er hefja samskonar iðnrekstur á tímabilinu frá 1. jan. 1927 til 1. júlí 1927, er lögin ganga í gildi, og ívilnunin miðist við framleiðslumagn þeirra eins og miðað er við 1 árs vörumagn hjá hinum.

Jeg vona, að þetta sje mönnum alveg ljóst, og jeg fyrir mitt leyti tel nauðsynlegt, að það komist að í frv. Ef hv. nefnd sæi sjer ekki fært að verða við þessum tilmælum mínum, þætti mjer vænt um, að hún gerði mjer viðvart í tíma, svo að mjer gæfist svigrúm til þess að koma þá sjálfur með brtt. En jeg tel vænlegra til lagfæringar, ef háttv. nefnd vill taka af mjer ómakið.