13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi ekki gert nál., af því að jeg er á móti frv. í heild. Jeg skal játa, að ummæli mín voru á því reist, að mjer fanst háttv. frsm. ekki gera nægilega grein fyrir nál. Það er auðvitað erfitt að ákveða, hve hár tollur skuli vera á þessari framleiðslu. Til þess verður að vita um árlegt vörumagn o. fl. Það fer líka eftir því, hve mikið innflutningsgjald af hráefni er goldið í ríkissjóð. En þetta hefir ekki verið upplýst í umræðunum. Jeg er hissa á hv. fjhn.- mönnum, sem vilja koma á tvenskonar löggjöf um þetta efni, annari fyrir þá, sem hafa verið svo lánsamir að stofna svona fyrirtæki fyrir 1927, og hinni fyrir þá, sem á eftir koma. Mjer finst þetta æðimikið brot á svo kallaðri „frjálsri samkepni“, sem þeir vilja þó, að ríki. Mjer finst það fullkomið ranglæti að láta eina verksmiðju njóta ívilnunar, en aðra, sem síðar er stofnsett, borga miklu hærra. Jeg get ekki verið að rekast í frekari umræðum um þetta, en jeg lít svo á, að frv. mætti vel bíða eitt ár eða svo og njóta betri undirbúnings.