14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Magnús Kristjánsson:

Það gleður mig, að hv. 5. landsk. (JBald) skuli vera farinn að hressast, því eins og hv. þdm. mun kunnugt, hefir hann verið lasinn að undanförnu. Að hann er kominn til heilsu aftur, marka jeg mest á því, hversu mjög hann er viðbragðsfljótur að spretta upp, til þess að mótmæla öllu, sem kemur fram í deildinni, stundum af góðum og gildum ástæðum, en oft að ástæðulausu. Það er því ofur skiljanlegt, þó að þessi hv. þm. átti sig stundum ekki sem best á hlutunum, þar sem það er svo margt, sem hann þarf að láta til sín taka. Annars skil jeg ekki, hversvegna hann er svona andvígur þessu frumvarpi, því að satt að segja hjelt jeg, að það væri í hans anda. En vel má vera, að honum finnist það ekki ganga nógu langt.

Brtt. okkar á þskj. 587 er beinlínis fram komin til þess að fyrirbyggja ranglæti gagnvart þeim mönnum, sem setja á stofn slík iðnaðarfyrirtæki á þessu ári. Því væri ákvæðum frv. ekki breytt í þessa átt, þá biðu þeir menn stórtjón, sem búnir væru að leggja mikið í kostnað við undirbúning undir slíkan atvinnurekstur, og tillit til slíks verður að taka, því að mjer finst, að löggjafarvaldið eigi ekki að ganga á undan í því að eyðileggja menn fjárhagslega.

Þetta ætti hv. 5. landsk. (JBald) að athuga áður en hann stendur upp aftur eða kemur með næstu skriflegu brtt. Annars held jeg, að það hafi engin áhrif, hversu oft sem hann sprettur upp í þessu máli og hve margar brtt. sem hann kemur með, því að það sýnir ekkert annað en það, sem allir hafa bæði sjeð og heyrt, að hann hefir ekki áttað sig á málinu.