14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

3. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Magnús Kristjánsson:

Það er að vísu ábyrgðarhluti að opna fyrir þann straum, sem altaf má búast við frá hv. 5. landsk. (JBald), en jeg held jeg verði þó að eiga það á hættu.

Það bar nú svo undarlega við, að hann komst í mótsögn við sjálfan sig, og treystist nú ekki að ræða það atriði, er hann byrjaði á, að brtt. væri til þess að gera frv. lakara en það væri, heldur snýr hann sjer nú að því að ræða málið alment, þó að hann hefði átt að vera búinn að því fyrir löngu. Nú kom hann að því, að þessi stefna, er í frv. felst, sje ekki heppileg. Það þýðir því ekki fremur venju að taka hann alvarlega. Hann er búinn að koma sjálfum sjer í bobba, með því að reyna að elta uppi ástæður, er hann getur ekki fest hönd á.

Hann sagði t. d., að það mundi vaka fyrir mjer að útvega einhverjum bitling. Jeg hafði satt að segja ekki búist við slíkri aðdróttun úr þeirri átt, en þetta sýnir, ásamt öðru, hrein röksemdaþrot hjá hv. þm. (JBald).

Þá kem jeg að því, sem hann mun telja aðalatriðið, að ófært sje að hindra, að ýms iðnaðarfyrirtækispretti upp á næstu árum. Jeg verð að segja það, að jeg álít þá framleiðslu, sem hjer er um að ræða að skattleggja, ekki þarfari en svo, að vel megi verða hlje á því um nokkur ár, að fleiri slík spretti hjer upp. En sá vísir til iðnaðar, sem hefir verið að myndast hjer á seinustu árum, á skilið — þótt eigi framleiði hann nauðsynjavörur — þessa lagavernd í bili, og það mundi líka bjarga mörgum öðrum frá að ganga inn á þessa braut, því að ef mörg samskonar iðnaðarfyrirtæki rísa hjer upp, hlýtur óhjákvæmilega að liggja fyrir þeim flestum að veslast upp úr hor. Þótt verndartollastefna eigi hjer á þingi ýmsa formælendur og ýmsa andmælendur líka, þá er ekki ástæða til að bendla hana við þetta mál, því að hjer er ekki verið að koma á eiginlegum verndartollum. En það er nauðsynlegt að stíga þetta spor vegna sjerstakra kringumstæðna, því að vegna fólksfæðar í landinu eru engar líkur til þess, að ung iðnfyrirtæki geti borið sig, ef engar tryggingarreglur eru settar um þau.