15.02.1927
Neðri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Pjetur Ottesen:

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það kæmi undarlega heim hjá mjer, sem vildi auka latínuna í mentaskólanum, að vilja nú afnema klassisk fræði við háskólann. Það er harla kynlegt, að háttv. þm. skuli koma þetta undarlega fyrir sjónir, því það er ósköp augljós hlutur, að eftir því sem meiri rækt er lögð við fornmálin í mentaskólanum, þá er því minni ástœða til að vera að halda uppi sjerstakri kenslu í þeim fræðum í háskólanum. En annars lýtur þetta frv. aðallega að grískukenslunni. En úr því að hann fór að minnast á aðstöðu mína til frumvarpa þeirra, sem legið hafa fyrir tveimur síðustu þingum um breytingu á mentaskólanum, skal jeg taka það fram, að það var ekki eingöngu af sjerstakri ást hjá mjer á latínunni, að jeg fylgdi því, heldur var það meðal annars af því, að mjer eins og fleirum blöskraði það geysilega aðstreymi að mentaskólanum, sem nú er og vex með ári hverju. Það er nú svo komið, að skólahúsið rúmar hvergi nærri allan nemendafjöldann og er þegar farið að leigja kenslustofur úti í bæ fyrir nemendurna. Þessi geysilegi straumur að mentaskólanum er engan veginn hollur eða til þjóðþrifa, af því að þjóðin hefir ekki sjerstaklega þörf fyrir svo mikla framleiðslu af svokölluðum lærðum mönnum í þau embætti eða þær stöður, þar sem krafist er slíkrar mentunar. En hinsvegar ekki hægt að telja það hyggindi, sem í hag koma, að fjöldi manna sje að eyða bestu árum æfi sinnar til að nema þær sjerfræðigreinar, sem ekki koma þeim að neinum notum í lífinu. Hjer er því um það að ræða að finna skynsamleg og haldgóð ráð til þess að draga úr þessu síaukna aðstreymi, og virtist mjer, að sú breyting á mentaskólanum að auka latínunámið og gera nokkra kunnáttu í því máli að inntökuskilyrði mundi meðal annars leiða af sjer, að nokkuð yrði af þeim sökum frekara í hóf stilt með aðsóknina en ella myndi. Þannig horfir þá þetta við frá mínum sjónarhól. Og þykist jeg nú hafa sýnt hv. 1. þm. Reykv. fram á, að hjer er ekki um að ræða neitt ósamræmi hjá mjer, eins og hann var að tala um.

Annars hefir sú raunin orðið á, hafi menn viljað fá fullkomnun í þessum fræðum, þá hefir orðið að styrkja þá til utanfarar, enda þótt hjer hafi verið haldið uppi kenslu í latínu og grísku við háskólann.