15.02.1927
Neðri deild: 6. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Pjetur Ottesen:

Jeg skal uppfylla það ákvæði þingskapanna að nota þessa stuttu athugasemd einungis til þess að bera af mjer sakir.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði, að það væri ósæmilegt af mjer að vilja sporna á móti aðstreyminu að mentaskólanum með aukinni latínukenslu. Í sambandi við þetta vil jeg benda honum á það, sem hann sagði sjálfur, að ekki væri sæmilegt að eyða dýrum tíma og miklu fje til þess að kenna þessi alóþörfu fræði í mentaskólanum. Jeg verð því að segja, að mjer finst hann ekki með öllu óskeindur af þessu, þegar hann sjálfur vill halda uppi þessum, að hans dómi sjálfs, óþarfa fræðum við háskólann og láta nemendurna eyða dýrmætum tíma og fje til þessara fræðiiðkana.

Þá var hann mjög hróðugur yfir því, að ekki hefði orðið mikill ávinningur af starfi þeirra, sem hefðu viljað spara á þessum sviðum. En hverjum er þar öðrum um að kenna en háttv. þm. og hans nótum?