07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Jón Guðnason):

Þetta frv. er gamall kunningi á Alþingi, því að það hefir verið borið fram tvisvar sinnum áður. Ástæðan til þess, að það hefir verið þetta oft á ferðinni, mun vera sú, að ýmsum hefir þótt lítið verkefni fyrir þennan háskólakennara, sem frv. ræðir um. En aðalorsökin til þess, að frv. hefir ekki náð fram að ganga, mun eflaust vera sú, að embætti þetta hefir verið skipað ágætum kennara og mjög mætum manni og að háttv. þdm. vildu ekki leggja niður embættið að honum lifandi.

Nú horfir þetta öðruvísi við, því eins og hv. þdm. vita, er embætti þetta óskipað sem stendur.

Mentmn. hefir leitað álits heimspekideildar háskólans, og fylgir svar hennar með nál. á þskj. 89 ásamt till. guðfræðideildar háskólans um ráðstöfun á þessu embætti. Og út frá því, sem þar segir, leggur nefndin til, að frv. verði samþykt.

En um leið og embætti þetta er lagt niður verður að ráðstafa grískukenslu þeirri, er guðfræðinemar hafa notið við háskólann, og hefir því nefndin hugsað sjer að leggja til, að tekin verði upp í fjárlög einhver lítilsháttar fjárupphæð til þess að standast kostnað þann, sem af grískukenslunni leiðir. Nefndin lítur svo á, að hjá því verði ekki komist að veita tilsögn í grísku, en hinsvegar ekki hægt að bæta því á guðfræðiprófessorana, nema með því að þókna þeim fyrir það aukalega.

Þá hefir heimspekideildin farið þess á leit, að veittur yrði styrkur í fjárlögum til þess að greiða að einhverju leyti kostnað við dvöl erlendra sendikennara, sem von er á, að komi hingað til háskólans til að flytja þar fyrirlestra. Nefndin hefir fyrir sitt leyti fallist á, að þetta sje nauðsynlegt, og mun því síðar bera fram till. í þessa átt, er fjárlögin koma til umræðu, og gera þá frekar grein fyrir þessari málaleitun.

Þó að hjer sje um tvær fjárhæðir að ræða, sem nefndin mælir með, að verði teknar upp í fjárlög, þá munu þær til samans aldrei nema meira en um helmingi þeirra launa, sem farið hafa árlega til grískudósentsins.

Nú liggur fyrir heimspekideild tilboð frá Ameríku um að senda hingað vísindamann í guðfræði, og mun það ráðið að sinna því, en í tilboðinu er jafnframt óskað eftir því, að þessi vísindamaður fái ókeypis dvöl hjer um 2–3 mánaða tíma.

Samskonar tilboð má búast við, að komi frá fleiri háskólum, einkum á Norðurlöndum, og er ekki nema gott til þess að vita, að erlendir vísindamenn leiti hingað, því að margt má af því læra.

Það sýnist því rjett að samþykkja þetta frv., enda sparast talsvert við það og hægt að fá kenslu í þessum fræðum fyrir margfalt minni laun en dósentsembættið kostaði árlega.