07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Jakob Möller:

* Mjer þykir eiginlega vænt um þetta nál., sem hjer liggur fyrir, þótt það að vísu sje því fylgjandi að leggja niður kennarastól í klassiskum fræðum. Því að með því er viðurkent af þeim mönnum, sem halda því fram, að embættið skuli lagt niður, að það sje þó nauðsynlegt.

En úr því að nefndin viðurkennir, að það sje nauðsynlegt, þá á jeg hinsvegar bágt með að skilja tillögu hennar um að leggja það niður. Jeg sje ekki annað en að því sama megi ná — sem sje þessum lítilfjörlega sparnaði — með því að skora á stjórnina að veita ekki þetta embætti að svo stöddu. Jeg sje ekki, hver vinningur er í þessum kringumstæðum að leggja það niður; — skil það ekki öðruvísi en sem bláberan þráa, að af því að búið er að jagast á þessu máli eins lengi og hefir verið gert, þá megi það ekki niður falla. Sparnaðurinn verður — eins og hv. þm. Borgf. (PO) benti á — hvergi nærri eins mikill og nefndin vildi vera láta. Það er upplýst, að fyrir þessa kenslu hefir verið samið um að borga 2000 kr. á yfirstandandi ári. Svo leggur nefndin til, að að minsta kosti álíka upphæð verði veitt til háskólans. Með þessum launum er niður feld viss kensla, sem kennari í þessum fræðum hafði á hendi, sem sje að hann las að einhverju leyti með norrænunemum háskólans. Sú kensla hygg jeg, að hafi verið nokkuð nauðsynleg líka, og má gera ráð fyrir, að hún verði tekin upp innan skamms, og verði þá að verja til hennar eitthvað svipaðri upphæð og fyrir grískukensluna. Og geri maður ráð fyrir, að samkv. till. nefndarinnar verði greiddar alt að 2000 kr., þá skil jeg ekki, að þetta geti verið neinn helmingssparnaður, eftir þeim launum, sem nú fylgja embættinu.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða svo um þetta mál, þar sem það er í raun og veru viðurkent, að þessi kensla sje nauðsynleg. En um það hefir einmitt aðallega verið deilt hingað til. En jeg vildi leyfa mjer að stinga upp á annari afgreiðslu málsins en nefndin leggur til og geri það að till. minni, að málinu verði vísað til stjórnarinnar. Jeg sje ekki betur en að það náist alveg það sama með því. En hinsvegar er óbeinlínis gert ráð fyrir, bæði í till. háskólans og mjer skilst líka í nál., að til þess geti komið síðar meir, að rjett væri að veita þetta embætti á ný. Það er nefnilega talað um það, að að svo stöddu sje ekki ástæða til að veita það, af því að ekki sje völ á neinum manni, er sje sjerstaklega til þess hæfur. Jeg deili ekki um það. En með þessu er gert ráð fyrir, að síðar meir kunni að vera ástæða til að veita það. Þess vegna tel jeg rjettara að leggja það ekki niður. Hinsvegar finst mjer eðlilegast, að um leið og málinu væri vísað til stjórnarinnar, væri á einhvern hátt sjeð fyrir því, að háskólinn fengi til umráða þennan mismun, sem um er að ræða af þeim kostnaði, sem er á því að halda uppi kenslu í grísku og embættislaununum. Þá er ekki háskólinn rýrður á neinn hátt. Mjer virðist það ekki vera sú fúlga, að það þurfi að sjá eftir því til háskólans. En jeg veit ekki, hvernig hæstv. stjórn tekur í þetta mál og hvort hún telur það fært án sjerstakrar heimildar. En um það mál mætti ræða í sambandi við fjárlögin.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.