07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Frsm. (Jón Guðnason):

Þessu frv., sem hjer liggur fyrir, hefir ekki verið tekið á þann veg, sem jeg bjóst við, af þeim tveim hv. þm., sem síðast hafa talað. Það virtist svo, sem hv. þm. Borgf. (PO) væri sleginn allmiklum felmti, — ekki reyndar út af frv. sjálfu, því að honum mun falla vel í geð sá sparnaður, sem það fer fram á, heldur út af till. nefndarinnar um nokkra fjárhæð til þess að halda uppi kenslu í grísku og einnig nokkra upphæð til þess að standast kostnað af dvöl erlendra vísindamanna, sem kynnu að koma hingað. Hv. þm. fórust svo orð, að hann hefði varla vitað tekið meiri vetlingatökum á sparnaðarmálum en nefndin hefir gert þarna. Mjer finst það út af fyrir sig ekki vera nein vetlingatök að fella niður embætti, sem hefir víst kostað ríkissjóð á undanförnum árum minst hálft 8. þús. kr., og um leið láta vinna meginið af því starfi, sem embættinu fylgdi, fyrir rúman fjórða hluta þeirrar upphæðar. Með þessu móti er það trygt, að háskólinn missir svo sem ekkert af því starfi, sem nauðsynlegt er, að þar sje unnið, en hinsvegar sparast allmikil upphæð. En okkur þykir vel hlýða að nota enn nokkum hluta þessarar upphæðar til þess að hlynna að háskólanum á öðru sviði, með því að verja henni til þess að standast kostnað af dvöl erlendra vísindamanna.

Jeg vil í því sambandi leggja áherslu á það, að þótt sparnaður sje einatt góður og þótt það orð hljómi alveg sjerstaklega vel í eyrum ýmissa kjósenda, þá má sparnaðurinn ekki ganga of langt gagnvart slíkri stofnun, sem háskólinn er. Og jeg sje heldur ekki betur en að hv. þm. Borgf. hafi áður á þingi — þótt einatt hafi hann sjálfur viljað telja sig sparnaðarmann — einmitt viðurkent þetta sama, sem fyrir nefndinni vakir, þar sem hann ljeði fylgi sitt til að stofna nýtt embætti við háskólann. (PO: Hvaða embætti var það?). Dósentsembættið, sem stofnað var fyrir tveimur árum; þar með var því slegið föstu um langt árabil, að ríkið bæri þau útgjöld, sem því embætti hljóta að fylgja. (PO: Var jeg með því að stofna dósentsembættið?). Svo minnir mig að væri. (PO: Jeg er hræddur um, að það sje rangminni! — TrÞ: Meginið af Íhaldsflokknum gerði það. — PO: Og með stuðningi Framsóknarflokksins! — TrÞ: Ekki mínum! — Forseti hringir: Ekki samtal í deildinni!).

Annars er þessi fjárveiting til vísindamanna alveg sjálfstæð út af fyrir sig, og þarf ekki að ræða frekar um hana nú, því að tilefnið gefst, þegar fjárlögin koma til umræðu.

En út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. (JakM) sagði, að nefndin hefði lýst yfir því í nál., að embœttið væri nauðsynlegt, vil jeg taka það fram, að þetta kemur alls ekki fram þar, heldur hitt, að nefndin telur nauðsynlegt að veita upphæð til að vinna það starf, sem grískudósentinn hafði á hendi. En hinsvegar sjer nefndin ekki ástæðu til að halda þessu embœtti áfram og láta það verða ríkissjóði svo dýrt, þar sem það mun mega telja víst, að þetta sama starf fáist unnið fyrir eitthvað 14 þeirra launa, sem undanfarið hafa verið greidd, þá er ekki hægt að sjá annað en að þetta sje verulegur og sjálfsagður sparnaður.

Eins og hv. þdm. hafa sjeð, þá höfum við borið þetta mál undir rjetta hlutaðeigendur, heimspekideild háskólans. Þar var ekki með einu orði minst á nauðsyn þess að halda þessu embætti við vegna latínukenslu, heldur er í till., sem prentaðar eru aftan við nál., aðeins minst á að halda uppi grískukenslu. Jeg get ekki gert mikið úr því, að þörfin fyrir latínukenslu sje svo brýn, þar sem sjálfir háskólakennararnir hafa ekki óskað eftir, að henni væri haldið áfram.