07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg geri ekki ráð fyrir að taka aftur til máls, enda er það ekki langt mál, sem jeg þarf að segja. En það eru ummæli hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og sjerstaklega hv. þm. Borgf. (PO), sem valda því, að jeg stend upp.

Hv. þm. Borgf. var að tala um vetlingatök í sambandi við þetta mál. Hann mun meðal annars hafa beint þessu til mín sem flm. Jeg vil þá benda á það, að fyrir mjer hefir aldrei vakað annað en að leggja embættið algerlega niður.

Viðvíkjandi því, sem dróttað var að mönnum um afstöðu til annars embættis, sem nýlega var stofnað, þá hygg jeg það rjett, sem hv. þm. Borgf. sagði, að hann hafi ekki ljeð atkvæði sitt til þess. En jeg vil um leið minna á, að það er jafnfágætt í Íhaldsflokknum, að menn standi á móti því, að óþörf embætti sjeu stofnuð, eins og það er sjaldgæft, að Framsóknarmenn sjeu með. Með þessari embættisstofnun var einn úr Framsóknarflokknum, en allir, nema einn eða tveir, úr Íhaldsflokknum.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði það fyrst, að nú væru menn orðnir sammála um, að kensla þessi væri nauðsynleg. Ýmsir álíta að vísu, að kensla í grísku sje nauðsynleg fyrir guðfræðinga, en af því þarf ekki að leiða, að þeim finnist embættið nauðsynlegt. En þar sem hv. þm. leggur til að vísa málinu til stjórnarinnar, þá þýðir það, að embættinu skuli haldið áfram. Afleiðingin verður því sú, að hv. þm. nær ekki því, sem jeg tel víst, að hann vilji ná, sem sje að afla peninga til annara hluta. Þess vegna vil jeg eindregið mælast til þess, að hv. deild afgreiði ekki þetta mál samkv. till. háttv. 1. þm. Reykv., að vísa málinu til stjórnarinnar.