07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Pjetur Ottesen:

Háttv. frsm. (JG) sagði, að það hefði slegið allmiklum felmti á mig við þessar till., sem mentmn. hygst að bera fram í sambandi við niðurlagningu þessa embættis. Jeg vil ekki segja, að jeg hafi orðið svo ákaflega uppnæmur við þessar till., enda er maður orðinn svo vanur að sjá sitt af hverju af þessu tægi hjer á þingi.

Hitt er annað mál og leynir sjer ekki, að þeim tilgangi hv. flm. (TrÞ), sem hann lýsti við 1. umr., að leggja embættið algerlega niður og spara þar með þann kostnað, sem af því leiðir, verður vitanlega ekki náð, ef mentmn. kemur fram till. sínum um afgreiðslu þessa máls.

Hv. frsm. sagði, að þetta embætti hefði kostað um 8 þús. kr. að undanförnu, en samkvæmt till. mentmn. myndi kostnaðurinn ekki nema meiru en sem svarar ¼ þeirrar upphæðar. Eftir launalögunum má jeg segja, að stofnlaunin eru 3800 kr., sem hækka upp í 4500 kr. Ef þetta embætti verður veitt, býst jeg við, að fyrst verði veitt byrjunarlaun með dýrtíðaruppbót eins og hún er reiknuð fyrir næsta ár. Myndu þá launin verða samanlagt um 5000 kr. Nú vil jeg spyrja háttv. frsm.: Hvað er það mikil upphæð, sem mentmn. ætlast til að varið sje í þessu skyni? Hvernig sem maður les nál. áfram og aftur á bak, þá er hvergi neitt að finna um það. Jeg býst satt að segja við því, að þessar till. muni í raun og veru hljóða upp á eitthvað meira en 1/4 af þessum 5000 kr., sem embættið myndi kosta til að byrja með. Þegar litið er á þá þörf, sem jeg tel vera á því að ljetta eitthvað á kostnaðinum við starfsmannahald ríkisins, þá skil jeg ekki, að það hafi verið ofmælt hjá mjer að segja, að nefndin hafi tekið á þessu með vetlingatökum.

Hv. þm. (JG) var að tala um, að sparnaðurinn ljeti náttúrlega vel í eyrum kjósenda, og gaf í skyn, að jeg mundi frekar vera hjer að tala fyrir hlustir kjósenda heldur en að jeg meinti nokkuð annað með þessu. (JG: Þetta sagði jeg ekki). Nei, að vísu, en það lá ekki annað nær en draga þessa ályktun af orðum hv. frsm. Mjer er náttúrlega alveg sama um svona aðdróttanir, en jeg vitna bara í því efni til minnar þingsögu.

Þar sem hv. þm. (JG) var að segja, að jeg hefði fyrir tveim árum verið með því að stofna dósentsembætti við háskólann, þá er það algerlega rangt hjá honum. Jeg var aldrei með því. (JG: Jeg viðurkenni, að þm. hefir rjett fyrir sjer).

Hv. þm. Str. (TrÞ) hjelt, að jeg meinti það til hans um vetlingatökin. Það, sem jeg talaði um í þessu sambandi, voru till. nefndarinnar. Reyndar gat jeg þess við 1. umr., að mjer kæmi það kynlega fyrir, að hv. þm. Str. hefði ekki stungið upp á víðtækari breytingu á embættaskipuninni en till. hans báru með sjer. Mjer fanst það ekki í samræmi við það, sem kom fram hjá honum 1925. Jafnframt lýsti jeg yfir því, að jeg mun koma fram með till. um þetta mál. Þess vegna œtla jeg ekki að tala um vetlingatökin hjá hv. þm. Str. (TrÞ) fyr en jeg sje, hvernig hann snýst við því máli.

Hv. þm. Str. var líka eitthvað að tala fram í um stofnun þessa dósentsembættis, — að það hefði verið Íhaldsflokkurinn, sem stóð sjerstaklega að því. Jeg hefi ekki haft tíma til að athuga, hvernig atkvgr. fjell, en jeg held, að embættið hafi verið stofnað með allríflegum stuðningi Framsóknarflokksmanna.