11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Pjetur Ottesen:

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að mjer þætti undarlega við bregða samanborið við fyrri framkomu hv. þm. Str. (TrÞ), og á jeg þar við till. þá til þál., sem hann flutti á þinginu 1925 um afnám og sameining embætta, að hann skyldi ekki nú bera fram frv. um ráðstöfun fræðslumálastjóraembættisins, sem nú er laust. Jeg gat þess við 2. umr. þessa máls, að jeg mundi koma með brtt. þessu viðvíkjandi, og liggur hún nú hjer fyrir. Með brtt. þessari er lagt til, að einhver af föstum kennurum kennaraskólans, skólastjóri eða aðrir, taki að sjer störf fræðslumálastjóra ásamt sínu eigin embætti. Skal dóms- og kirkjumálaráðherra ákveða borgun fyrir störf þessi, sem þó má ekki fara fram úr hálfum byrjunarlaunum fræðslumálastjóra með dýrtíðaruppbót. Ennfremur er ráðherra heimilt, ef samkomulag næst ekki við einhvern fastan kennara kennaraskólans um að taka að sjer þessi störf, að fela þau einhverjum hæfum manni, þar til kennarastaða losnar og hægt er að gera það að skilyrði fyrir veitingu, að kennarinn taki að sjer þessi störf. Mjer þótti rjettara að setja þetta ákvæði, því jeg býst ekki við, að hægt sje að skylda núverandi kennara til þess að taka við þessum störfum, ef þeir vilja ekki gera það af fúsum vilja.

það mætti vafalaust benda á fleiri leiðir til ráðstöfunar störfum fræðslumálastjóra. En jeg valdi þessa leið af því að mjer fanst mestur skyldleiki með störfum kennaranna við kennaraskólann og starfi fræðslumálastjóra. Jeg vildi ekki fastbinda í till., hverjum af kennurunum skyldi falið starfið. Vel getur svo farið, að einhver, sem nú er þar kennari, verði síðar skólastjóri, og jeg taldi ekki rjett að hafa nein ákvæði, sem yrðu þess valdandi, að hann yrði að sleppa starfinu þess vegna, því að jeg álít heppilegast, að sami maður gegni starfinu sem lengst. Að þetta sje framkvæmanlegt frá því sjónarmiði, að kennari geti int þessi störf af hendi ásamt sínu embætti, hefir reynslan þegar sýnt, þar sem einn af kennurum kennaraskólans hefir haft þessi störf með höndum undanfarið ásamt. sínu embætti. Jeg veit ekki annað en þetta hafi alt gengið vel. Mjer virðist því, að á þennan hátt eigi að vera sæmilega sjeð fyrir þessari hlið málsins. — Þá er kostnaðarhliðin. Jeg hefi lagt til, að dóms- og kirkjumálaráðherra ákveði þóknunina, eins og jeg hefi minst á. Þó að talað sje um í brtt., að sá af kennurum kennaraskólans, sem tæki að sjer þetta starf, fái að launum fyrir það sem svarar hálfum grunnlaunum fræðslumálastjórans eins og þau nú eru ákveðin, ber þó ekki að skilja það þannig, að kerslumálaráðherra eigi eða sje bundinn við að semja um þessa borgun fyrir starfið, heldur sje ráðherrann bundinn við að ganga aldrei lengra en þetta. Hinsvegar gæti svo staðið á, að hægt væri að komast af með minna fjárframlag í þessu skyni, ef svo stæði á, að sá kennari, sem með embættið fer, er kominn í hæsta launaflokk kennara.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þetta mál; það ætti öllum að vera ljóst, að hjer er einungis verið að ganga inn á þá braut, að reyna að draga úr útgjöldum, sem hægt er að komast hjá. Og nái þetta fram að ganga, má vel vera, að eftirleiðis verði greiðara að koma slíkum málum fram en verið hefir hingað til, því hálfnað er verk þá hafið er, því einmitt þá leið, sem hjer ef farið inn á með þessari tillögu, að sameina embætti, tel jeg líklegasta til þess að draga úr embættakostnaðinum. Með brtt. þessari er því alls ekki slegið föstu, að sá, sem þjónar fleiri embættum en einu, skuli hafa hálf laun þess embættis, er hann bætir við sig, heldur er hjer tiltekið, að ráðherra skuli kveða á um það, að það geti verið minna, eftir þeim ástæðum, sem eru fyrir hendi í hverju einstöku tilfelli. Fjölyrði jeg svo ekki frekar um þetta, nema ef umræðurnar gefa mjer sjerstaklega tilefni til þess.